141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom að í fyrra andsvari mínu hefur umræðan að því er varðar víðerni og ósnortin svæði í raun verið tiltölulega lágstemmd á Íslandi. Það er merkilegt og kannski ræðst það af því að við höfum ekki haft áhyggjur af því að við værum að ganga á þessi svæði. Við höfum hins vegar gengið mjög bratt á þessi svæði undanfarin ár í þágu virkjana og annarrar nýtingar. Það er þess virði að staldra við nákvæmlega þennan þátt og við sjáum það á rannsóknum til að mynda ferðaþjónustunnar að aðdráttarafl víðernanna er gríðarlega mikið og meðal annars nefna menn þær ástæður helstar fyrir því að þeir koma til landsins. Þeir merkja ekki síður við það sem sérstakt áhrifagildi að njóta víðernanna. (Forseti hringir.) Okkur þótti ábyrgt og faglegt að staldra við þennan þátt og mér þykir miður ef hv. þingmaður er mér ekki sammála um það (Forseti hringir.) að víðerni eigi sér einhvern málsvara.