141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er í raun einfalt að svara. Lokaskýrsla verkefnisstjórnarinnar fól í sér röðun þessara virkjunarkosta en ekki eina röðun, þ.e. það var ekki hægt að taka röðunina sem slíka og skipta henni upp í þessa þrjá þætti. Röðunin var út frá mismunandi sjónarhornum. Það er ástæðan fyrir því að þessi leið var farin. Eins og ég kom áður að þótti faglegast og best að gera það þannig að formaður verkefnisstjórnarinnar og formenn faghópanna fjögurra hefðu með höndum þessa faglegu yfirsýn, hvort sem það var af sjónarhóli nýtingar, ferðaþjónustu eða verndar.

Það var ástæðan og svo má kannski geta þess líka að verkefnisstjórninni var í sjálfu sér ekki falið að skila flokkun (Forseti hringir.) þannig að það var veruleikinn sem við ráðherrarnir höfðum í höndunum, það að búa niðurstöðuna (Forseti hringir.) út til þingtækrar meðferðar.