141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er svo margt sem mig langar að fjalla um í umræðunni um þessa þingsályktunartillögu, en maður verður að kunna sér hóf. Mig langar í stuttu máli að lýsa afstöðu minni almennt til þess verkefnis að setja rammaáætlun og fara síðan aðeins í rökstuðning ráðherrans áðan þar sem hún kom inn á víðerni.

Verkefnisstjórn um rammaáætlun skilaði af sér fyrir rúmu ári. Það má gagnrýna hvað langur tími leið frá því að skil voru og fram að því að við stöndum nú hér. Þegar þetta verkefni var sett af stað á sínum tíma komu að því margir sérfræðingar og helstu sérfræðingar okkar til margra ára. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var verkefnisstjórn um rammaáætlun í 2. áfanga sett af stað og lögð aukin áhersla á náttúruvernd. Þar sjáum við strax áhuga og áherslur Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Meiningin með þessu öllu var að reyna að búa til áætlun sem mundi skapa sátt um það hvaða kosti skyldi vernda og hvaða virkjunarkosti mætti nýta.

Hér hefur staðið mikill styrr um þessi mál á undanförnum árum og missirum. Það þekkja allir, en með rammaáætlun var ætlunin að skapa sátt. Þá var öll áherslan lögð á að nálgast viðfangsefnið með sem faglegustum hætti. Þess vegna er mjög miður að sjá í hvaða farveg málið er komið í þinginu á grundvelli vinnubragða ríkisstjórnarinnar sem kemur strax með pólitísk afskipti í þeirri þingsályktunartillögu sem nú er lögð fram í þinginu. Ég harma það og bendi á að á morgun mun hér fara fram umræða um tillögu frá okkur sjálfstæðismönnum sem varðar breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ég mun tjá mig frekar um það síðar.

Ég ætla að einbeita mér að ræðu hæstv. ráðherra og rökstuðningi hennar fyrir því að færa Skrokköldu og Hágönguvirkjanir úr nýtingarflokki, sem var í þeirri tillögu sem upphaflega kom fram af hálfu ráðherrans og formanna faghópa, yfir í biðflokk og rökstyðja það með því að komið hefðu upp einhver ný sjónarmið um víðerni sem aldrei hefði verið fjallað um áður.

Ef við lítum yfir þá skýrslu sem skilað var í júní 2011, þ.e. niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar, er á fjölmörgum stöðum hægt að finna orðið víðerni. Mikil umfjöllun er um það. Ef við skoðum umfjöllun um faghóp 1, getum flett upp á bls. 72, sjáum við strax að verið er að tala um sérstakar ábendingar frá þeim hópi. Þar er algjörlega ljóst að faghópur 1 fjallaði um mikilvægi víðerna. Það kemur fram hér, með leyfi forseta:

„Á listanum eru einnig þrjú verðmæt og lítt snortin háhitasvæði með verðmætu og fágætu landslagi sem faghópurinn telur mjög mikilvægt að verði vernduð sem óbyggð víðerni laus við áberandi mannvirki.“

Svo kemur jafnframt fram neðar á síðu 72:

„Röð verðmætustu svæða hérna með tilliti til bæði landslags og víðerna er þessi:“ — Síðan er raðað upp.

Faghópur 1 hefur augljóslega haft í huga þau sjónarmið sem ráðherrann var að segja að ekkert hefði verið fjallað um og enginn tekið tillit til og tekið þau til meðferðar í starfi sínu í faghópi 1 við vinnu verkefnisstjórnarinnar.

Faghópur 1 segir síðan í lokasetningunni í kafla sínum, á bls. 83, varðandi mat á áhrifum: „Há einkunn var gefin ef framkvæmd klýfur eða skerðir verulega stór, samfelld og/eða verðmæt víðerni.“ Það er þung áhersla lögð á þetta hjá faghópi 1. Það var fjallað um þetta.

Síðan skoðum við faghóp 2. Þá getum við flett upp á bls. 87. Faghópur 2 fjallaði um áhrif virkjunarhugmynda á ferðaþjónustu, útivist, landbúnað og hlunnindi. Af töflu sem mætir okkur strax á bls. 87 í skýrslu verkefnisstjórnarinnar er ljóst að fjallað hefur verið um róf afþreyingarmöguleika. Fremst í rófinu er víðerni. Þar er flokkunin: Að mestu ósnortin svæði, vélvædd umferð ekki leyfð; að mestu ósnortin svæði, vélvædd umferð leyfð; aðgengileg náttúrusvæði; svæði sem einkennast af landbúnaðarlandslagi; útivistarsvæði í borgum og þéttbýli. Í textanum kemur fram að hópurinn hefur fjallað um víðerni, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af því sjónarmiði eru víðerni og svæði þar sem náttúrunni hefur ekki verið raskað af mannavöldum mjög eftirsótt af ákveðnum markhópi ferðamanna.“

Hér er ljóst að faghópur 1 og faghópur 2 hafa fjallað um víðerni og tekið tillit til þess í mati sínu á hvaða áhrif einstakir virkjunarkostir hefðu á ósnortin víðerni. Við sjáum strax að rök ráðherrans, sem fram komu í ræðunni og koma fram í tillögunni, eru byggð á sandi. Við förum því ekki í neinar grafgötur um það að hér er einfaldlega verið að færa til kosti og reyna að finna einhvern málamyndarökstuðning til að það sé hægt og hægt sé að segja að vinnan hafi verið fagleg. Við sjáum það bara sjálf þegar við skoðum gögnin að málflutningurinn heldur ekki vatni.

Frú forseti. Hvað á að gera þegar hart er deilt í samfélaginu um mikilvæg málefni, okkar mikilvægu auðlindir? Ég held að hér hafi verið ráðist í ákveðið þrekvirki, að skapa sátt um virkjanamál. Ég tel að það hafi verið mikilvægt og rétt að hefja vinnu að gerð rammaáætlunar. Ég er sannfærð um að hægt er að fylgja því ferli allt til enda. Ég er enn sannfærð um það þó að við stöndum hér í átökum um þetta mál. Ég hef þá trú á íslenskum stjórnmálamönnum að þeir geti sætt sig við þá málsmeðferð sem lögð var fram í upphafi, þ.e. að treysta á hin faglegu rök.

Ég veit vel að allir stjórnmálamenn hér inni hafa mismunandi afstöðu til einstakra virkjunarkosta. Eins og kom fram í andsvari hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem ræddi við ráðherrann áðan þá var hann undrandi á því að ráðherrann skyldi ekki hafa látið pólitíska putta sína leika meira um skjalið. Þar birtist okkur sá hugsunarháttur að það eigi einfaldlega að handraða virkjunarkostum eftir því hvaða flokkur er í ríkisstjórn á hverjum tíma. Það er akkúrat það sem við þurfum að forðast. Það er það sem þetta ferli átti að koma í veg fyrir. Ég vil ekki sjá það og það skapar enga sátt og leysir engin vandamál að í dag komi rammaáætlun vinstri manna og fari í gegnum þingið. Síðan eftir nokkur ár, vonandi nokkra mánuði, þegar komin er önnur ríkisstjórn í landinu setur hún fram allt aðra rammaáætlun og breytir öllu, snýr öllu á hvolf. Við ætluðum að forðast þetta með því að koma þessu ferli af stað og klára það til enda. Mér þykir afskaplega leitt að sjá það ekki gerast.

Maður fær víst ekki allt sem maður vill en getur hins vegar hreyft við umræðunni og reynt að leiðrétta þetta mál. Það er ekki of seint. Við erum enn með það til umræðu í þinginu.

Frú forseti. Ég hef ekkert minnst á aðra virkjunarkosti sem eru líka mjög mikilvægir og talsvert hefur verið fjallað um. Hv. þm. Jón Bjarnason minntist á virkjanir norður í landi. Auðvitað er það rétt í sjálfu sér að þær röðuðust mjög hátt í niðurstöðu verkefnisstjórnar. Kalla þarf eftir sérstakri umræðu um hvers vegna niðurstaðan varð sú að þeir kostir fóru ekki í vernd, sem dæmi. Það er svo margt sem hægt er að taka fyrir hér. Ég hef ekki fjallað neitt um virkjunarkosti í Þjórsá, en þeir kostir eru með þeim mest rannsökuðu kostum á landinu, að því ég tel og gögnin sýna okkur. Það er því svolítið skrýtið að sjá þann rökstuðning að þeir séu settir í biðflokk vegna þess að það vanti upplýsingar. Við höfum svo sem átt umræðu um það áður hér í þessum stóli, ég og hæstv. ráðherra. Ég er ekki sammála því mati sem fram kemur í tillögum ráðherrans að það verði að raða þeim í biðflokk vegna skorts á upplýsingum. Biðflokkurinn var ekki hugsaður sem geymslustaður fyrir kosti sem erfitt er að raða út af pólitískum sjónarmiðum. Rammaáætlun átti ekki að vera þannig uppbyggð.

Mig langar að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra, sem ég varpaði fram í andsvörum áðan, varðandi hversu margar teravattstundir eru fyrir utan þessa áætlun vegna friðlýsingarákvæðisins í lögunum. Ég tel að mikilvægt sé að það komi fram vegna þess að ráðherrann tiltók hér hversu margar teravattstundir væru í hverjum flokki, jafnframt hversu margar væru þegar komnar til framkvæmda í formi virkjana. Ég tel mikilvægt upp á þingtíðindi að þetta komi fram (Forseti hringir.) í umræðunni.