141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á því að spyrja hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hvort hún telji að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn eigi að fara að settum lögum.

Ef hún telur að ráðherrar og þingmenn eigi að fara að settum lögum þá er það svo að lögum samkvæmt á að fara fram samráðsferli við allan almenning og alla þá sem vilja koma áleiðis athugasemdum í ferli rammaáætlunar. Ef það er þannig á þá ekki eðli málsins samkvæmt að taka tillit til alvarlegra athugasemda sem berast?

Fyrir mitt leyti, eins og ég sagði á síðasta þingi, væri einmitt mjög aðkallandi fyrir Alþingi og alla alþingismenn að hlusta enn betur á þær aðvaranir sem hafa komið fram vegna nýtingar á háhita, háhitavirkjunum, vegna brennisteinsvetnismengunar o.s.frv.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún deili áhyggjum, ekki bara hv. þingmanna úr ýmsum flokkum heldur líka íbúa á Suðurlandi í kjördæmi hv. þingmanns, um þau heilsufarslegu áhrif sem brennisteinsvetnismengun hefur nú þegar. Hvort hún deili áhyggjum vísindamanna af þeirri óvissu sem fylgir slíkri nýtingu, óvissu um sjálfbærni og fleira, og hvort það sé ekki í anda laganna um samráð að hafa ferlið vandað, að við vöndum okkur og förum fram af varfærni.

Telur hún það virkilega í anda laganna að hunsa slíkar alvarlegar ábendingar eða á að fara eftir þeim og eiga þetta (Forseti hringir.) samtal við fólkið í landinu?