141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er í sömu stöðu og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, mér finnst tíminn til að ræða þetta mikla mál í þessari umræðu ekki mikill. Það er bót í máli að við getum rætt það í síðari umr. um málið. Ég er í þeirri nefnd sem ræðir þetta mál í góðri samvinnu við atvinnuveganefnd í þinginu. Þess vegna langar mig að reifa nokkra punkta sem kunna að hljóma sundurlausir.

Fyrst þetta, ég tel að hv. þm. Jón Bjarnason misskilji aðeins grundvöll þessa máls þegar hann talar um biðflokk virkjunarkosta. Það er ekki um neinn slíkan flokk að ræða. Skiptingin er í þrjá flokka, í flokk sem kallaður er orkunýtingarflokkur, síðan flokk sem kallaður er verndarflokkur en ætti kannski frekar að heita verndarnýtingarflokkur og loks er þriðji flokkurinn biðflokkur. Skilyrði og forsendur þess að virkjanlegt landsvæði fari í biðflokk eru að ekki hafi verið gengið frá rannsóknum, að það sé einhver vafi á staðreyndunum í kringum það landsvæði eða náttúrufyrirbrigði. Að auki er í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar, eða kannski var öll nefndin sameinuð um álitið, um frumvarpið sem varð að lögum um rammaáætlun nefnt að ef almannahagsmunir krefjist — nú tala ég eftir minni — geti ráðherra lagt til og þingið samþykkt að kostir fari í bið þó að þeir teljist nokkurn veginn fullrannsakaðir. Ég skil þetta ákvæði þannig að þá sé til dæmis átt við að pólitísk staða sé viðkvæm eða að menn vilji ekki gera út um málið strax heldur fela það síðari tímum.

Þessir kostir hafa ekki verið fullkomlega skilgreindir og það er eðlilegt. Þetta eru fyrstu lögin og út af fyrir sig fagna ég því að sjálfstæðismenn koma fram með breytingartillögur við þau. Ég hef sjálfur íhugað hugsanlegar breytingar á lögunum einmitt um þetta. Það þarf svo sem ekki að breyta lögunum til þess en ég túlka orkunýtingarflokkinn svipað og mér heyrðist hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gera áðan, þannig að á landsvæðum sem fara í hann séu ekki þar með komnar upp virkjanir, það sé ekki eingöngu vegna þess að það vanti peninga eða það þurfi að fara í gegnum umhverfismat og fá framkvæmdaleyfi á slíka hluti, heldur komi til greina að næsta verkefnisstjórn fari líka yfir orkunýtingarkostina, skoði þá í ljósi breyttra aðstæðna og flokki upp á nýtt. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu.

Ég vil líka segja strax að sú gagnrýni sem komið hefur fram á ferlið í þessu, og lýsir sér til dæmis í því að að Sjálfstæðisflokkurinn telur sig þess umkominn að draga hina faglegu línu og talar svo um hina pólitísku skítugu putta, hina miklu afskiptasemi og breytingar, er einkennileg og ekki í samræmi við þá samstöðu sem varð um málið á þinginu í hittiðfyrra. Þessi skipting í þrjá flokka hlýtur að vera á ábyrgð ráðherra samkvæmt bæði lögunum sem við vinnum núna eftir og venjum á þinginu. Það er óvenjulegt og ég held að það sé hvergi til í lögbókinni að ráðherra sé gert að flytja tillögu sem hann ber ekki ábyrgð á. Ég tel engu að síður að þingi og ráðherra sé í raun og veru skylt samkvæmt anda laganna, þó að það standi hvergi í þeim, þó að það sé ekki bókstafur laganna, að hlíta niðurstöðu verkefnishópsins og þess hóps sem síðan leggur til tillögudrögin að því leyti að hvorki ráðherra né þing færi kost úr vernd í orkunýtingu eða úr orkunýtingu í vernd. (Gripið fram í.) Hins vegar getur viðkomandi sjálfsagt gert þá tillögu í ljósi upplýsingastöðu og þess vegna almannahags, samanber meirihlutaálit iðnaðarnefndar frá því í hittiðfyrra — sem mig minnir að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi verið aðili að, skal þó ekki fullyrða það hér, ég vil ekki fara með staðlausa stafi í stólnum — enda sé það vel rökstutt að færa kosti hvort sem er úr orkunýtingarflokki eða verndarflokki í bið. Sá hræðilegi glæpur sem ráðherrarnir tveir, fyrrverandi iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra sem nú heita reyndar öðrum nöfnum, gerðu sig seka um var eftir allt saman það að breyta drögunum að þingsályktunartillögu þannig að samtals sex kostir á tveimur svæðum voru settir í biðflokk. Það er mjög sérkennilegt að heyra stjórnarandstæðinga, sem betur fer ekki alla en suma fulltrúa orkufyrirtækjanna, vera nánast eins og með hótanir vegna ákvörðunar um að bíða með virkjunarkosti og landsvæði á tveimur pörtum á Íslandi. Það þýðir að málið sé komið upp í loft og gæti gefið næstu ríkisstjórn eða þarnæstu leyfi til að fara með rammaáætlun eins og henni sýnist.

Ég endurtek þessa staðreynd vegna þess að hún er ákaflega mikilvæg, það sem hefur gerst frá drögunum sem komu frá faghópstjórunum og verkefnisstjórninni og yfir í þingsályktunartillögu umhverfis- og auðlindaráðherra í samráði við atvinnuvegaráðherra, eins og þeir heita núna, er að nokkrir kostir hafa verið settir í bið. Þeir hafa verið sérstaklega skilgreindir og það er gert ráð fyrir að unnt sé að upplýsa það sem á vantar eins fljótt og hægt er og fyrr en ég tel reyndar skynsamlegt.

Mig langar að segja ansi margt en verð að vekja athygli á því hverjar tölurnar raunverulega eru vegna þess að um þær var rætt. Ein af merkustu niðurstöðum verkefnishópsins sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lofar svo mjög — enda var hv. þingmaður í honum sjálf, og tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur meðal annars út á það að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir taki að sér hlutverk fagmannsins í þessu og ákveði sjálf, væntanlega með atkvæðagreiðslu og málflutningi í verkefnisstjórninni, (Gripið fram í.) hverjir séu hinir faglegu kostir. Já, það er rétt, Jón Gunnarsson. Formaður nefndarinnar er fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, en það er ykkar tillaga. (JónG: Já, já.) Eiga þá ekki allir flokkar að vera í þessari nefnd? (Gripið fram í.) Eiga ekki flokkarnir að tilnefna í verkefnisstjórnina (JónG: Það eiga ekki allir flokkar …) sem síðan á að greiða atkvæði um einstaka virkjunarkosti? Þetta er náttúrlega algjör — (Gripið fram í.) hér er kominn alger farsi eftir höfundinn Jón Gunnarsson sem er einstaklega góður farsahöfundur þegar hann tekur sig til þó að manni finnist stundum annað í ræðustól. Þó hefur það komið fyrir, t.d. þegar hann þríflutti sömu ræðuna í umræðunni á síðasta þingi, það var nokkuð góður farsi hjá Jóni Gunnarssyni. Hann getur tekið sig til og flutt virðulegar tillögur og frumvörp í þessu sama skyni.

Nú missti ég þráðinn (Gripið fram í.) í þessum skemmtilegu orðaskiptum við þingmann sem situr úti í sal. Ég bið hann að halda áfram að grípa fram í fyrir mér því að það eru einhverjar skemmtilegustu stundir sem ég hef í þingsalnum, að eiga við hann í þeim klíðum.

Ég var að tala um heildarorkuna. Það er best að ég ljúki máli mínu á því að endurtaka að í þessum 16 virkjunarkostum eru samtals 8,5 teravattstundir, í biðflokknum er 31 virkjunarkostur með samtals 12,5 teravattstundir og í verndarflokki eru svo 11,4 teravattstundir. Jafnvel þó að við settum Gullfoss inn sem sérstakan greiða við Unni Brá Konráðsdóttur erum við með samtals virkjanlegt afl í landinu sem nemur tveimur og hálfri Kárahnjúkavirkjun. Þetta þýðir að við verðum að fara mjög varlega (Forseti hringir.) með það sem við gerum í framhaldinu. Við verðum að virkja skynsamlega, virkja ekki nema hægt sé að fá hátt og gott verð fyrir orkuna og eyðileggja ekki (Forseti hringir.) þau náttúruverðmæti sem við höfum í landinu og eru okkur bæði uppspretta gleði og trúnaðar og líka (Forseti hringir.) auðs sem við framköllum með öðrum hætti en þeim að reka þangað orkufyrirtækin til þess að (Forseti hringir.) virkja.