141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum varðandi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hér á landi.

Ég minni á að þetta var eitt stærsta mál hér á þingi og í samfélaginu í heild fyrir allnokkrum árum. Þá voru uppi hin gegndarlausu virkjanaáform sem þáverandi stjórnvöld beittu sér fyrir. Deilan og átökin um Kárahnjúkavirkjun voru mikil. Það mál var keyrt áfram af stjórnvöldum með miklu offorsi án þess að taka tillit til faglegra eða tilfinningalegra raka sem lágu fyrir. Meira að segja var gengið gegn álitum og mati stofnana sem höfðu með málið að gera og fjölluðu um það.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var því í hæsta máta eðlilegt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem leiddi baráttuna fyrir verndun hálendisins, fyrir verndun dýrmætra fallvatna og leiddi baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun, mundi krefjast þess að ef hún kæmist í ríkisstjórn yrði gert verulegt átak í því að friða og vernda þær náttúruperlur og náttúruauðlindir sem við höfum og viljum ekki að sé ráðstafað til virkjana, og að við mundum forgangsraða og krefjast annarra vinnubragða varðandi nýjar virkjanir.

Það varð síðan að ráði að ráðist var í vinnu við hina svokölluðu rammaáætlun. Eins og segir í lögunum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem samþykkt voru 11. maí 2011, var lagt til að sérstök verkefnisstjórn yrði stofnuð, eins og segir í 10. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Verkefnisstjórn byggir faglegt mat sitt á upplýsingum sem fyrir liggja um þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætlun og beitir við það samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum. Vinna faghópa er lögð til grundvallar matinu. Verkefnisstjórn skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Fornleifaverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti eru nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætluninni. Teljist gögn ófullnægjandi skal verkefnisstjórn láta safna viðbótargögnum og vinna úr þeim áður en eiginlegt matsferli hefst.“

Þetta er í upphafsmálsgreininni. Áfram er þetta rakið og hlutverk verkefnisstjórnar er þar einmitt rakið. Hlutverk hennar er ótvírætt, ekki einungis að safna gögnum um þetta heldur líka að gera tillögur um val eða skiptingu virkjunarkosta í þá þrjá flokka sem hérna hafa verið ræddir, þ.e. nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Það er einmitt kveðið á um það í 10. gr. eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Að loknu samráðs- og kynningarferli, og að loknu umhverfismati í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, leggur verkefnisstjórn fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina.“

Á grundvelli þessa taldi ég að verkefnisstjórnin ætti að vinna. Lögð var áhersla á það við myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna að áherslur flokkanna og stefna endurspeglaðist vel í þeirri vinnu. Ég man að lögð var til dæmis áhersla á það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipaði fulltrúa í þennan verkefnisstjórnarhóp, skipti um fulltrúa til að fylgja betur eftir þeim áherslum og stefnu sem umræddir flokkar höfðu. Sá fulltrúi sem fyrir var gat ekki annað en hlýtt fyrirmælum viðkomandi ráðherra og skipt var um fulltrúa og ég setti Björgu Evu Erlendsdóttur sem fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í þá verkefnisstjórn. Eins og allir vita er Björg Eva Erlendsdóttir einn virtasti fulltrúi náttúruverndarsinna og mjög kunnug þessum málum og mjög vel treystandi. Að vísu voru gerðar athugasemdir við það, og ég vil bara upplýsa að það var forsætisráðherra, að ég skyldi vera að skipta þarna um fulltrúa og fara að rugga bátnum eins og sagt var.

Það sem mér fannst líka athyglisvert í umræðunni — og af því við erum með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem hefur tekið til máls hér, hún var skipuð í verkefnisstjórnina á sínum tíma það ég best veit af þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem fulltrúi hans í verkefnisstjórninni. Hún hélt síðan áfram eftir að ríkisstjórnin var mynduð sem fulltrúi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég ber virðingu fyrir skoðunum og áherslum Unnar Brár Konráðsdóttur þótt ég sé henni ekki sammála og mjög ósammála í sumum atriðum hvað þetta varðar. Á sama hátt og ég hef bæði mjög sterkar skoðanir og tilfinningar í þessum efnum virði ég það að aðrir geti haft þær gagnstæðar.

Það sem mér fannst afar sérstætt var að í ríkisstjórn sem var mynduð um þetta eitt stærsta mál sitt — það lá alveg fyrir að um það væri pólitískur ágreiningur og líka það sem menn kalla á hátíðarstundum faglegur ágreiningur, sem ég hef nú aldrei skilið því hann er líka jafnteygjanlegur og margt annað. Engu að síður þarf að sjálfsögðu að vera vitneskja, gögn og þekking að baki þeirri ákvörðun sem tekin er, hvort sem maður er sammála henni eða ekki. Ég ræddi það og nefndi í ríkisstjórn einmitt í tengslum við þau skipti sem ég gerði á fulltrúum í verkefnisstjórn hvort forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ætlaði að láta líka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, þann merka og góða þingmann, vera sinn fulltrúa í þessari verkefnisstjórn. Niðurstaðan varð sú að forsætisráðherra breytti því ekki. Í því fólust að mínu mati ákveðin pólitísk skilaboð af hálfu forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég man að því var fagnað í mínum flokki þegar ég setti Björgu Evu Erlendsdóttur inn sem minn fulltrúa.

Þetta hefur ekkert að gera með ágæti og skoðanir — ég legg áherslu á það — Unnar Brár Konráðsdóttur en ég geri athugasemdir við heilindin á bak við þetta af hálfu forsætisráðherra í þessu eina stærsta máli ríkisstjórnarinnar. Það er það sem ég geri og vil bara láta það koma fram þegar hv. þingmenn eru í orðaskiptum við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að hún er kannski að einhverju leyti að tala sem umboðsmaður forsætisráðherra í þeirri vinnu sem hún tók þátt í þarna. Það skulu menn hafa hugfast.

Hitt sem ég vildi líka leggja áherslu á varðar röðun og flokkun eins og ég gat um í stuttu andsvari mínu áðan. Ég vil endurtaka það að í því virkjanafári sem gekk yfir í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, og síðan átti að vera framhald á því, var ætlunin að ráðast í jökulsárnar í Skagafirði og þess vegna Skjálfandafljót. Á Alþingi fluttum við tillögur, allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um verndun jökulsánna í Skagafirði. Sömuleiðis voru fluttar tillögur bæði af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar um verndun Skjálfandafljóts. Þetta voru okkur stór mál. Ég geri mér alveg grein fyrir því að um þetta eru skiptar skoðanir. Ég geri mér alveg grein fyrir því, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom hér inn á, að það eru aðilar heima í Skagafirði sem vilja virkja jökulsárnar í Skagafirði en svo eru aðrir sem vilja það alls ekki.

Við sem erum þeirrar skoðunar að ekki eigi að virkja þær viljum sjá „Skín við sólu Skagafjörður“ án þess að Héraðsvötnin séu stífluð. Þá berum (Forseti hringir.) við þau mál fram.

Ég hefði viljað sjá, herra forseti, að þeim stefnumálum og markmiðum flokkanna (Forseti hringir.) beggja væri fylgt betur eftir en gert er í tillögunni. Ég hefði viljað (Forseti hringir.) sjá það, herra forseti.