141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:08]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður alltaf mitt hjarta þegar ég er ósammála hv. þm. Pétri Blöndal, þá veit ég að ég er á réttri leið, (Gripið fram í.) meðal annars í þessu því að ég þekki umræðuna vel sem fram fór á sínum tíma um virkjunaráformin.

Kemur það ekki úr hörðustu átt frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og stuðningsmönnum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þeim tíma þegar Kárahnjúkavirkjun var ákveðin, að tala um fagleg vinnubrögð? Ég veit ekki betur en að Skipulagsstofnun eða hvaða aðili það var — sem var í rauninni það stjórnvald sem átti að leggja hið faglega mat á það hvort ætti að ráðast í Kárahnjúkavirkjun eða ekki — hafi sagt að það ætti ekki að ráðast í hana, það væri of mikill fórnarkostnaður og það ætti ekki að ráðast í hana. Hvað gerði ríkisstjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals þá? Ýtti öllum faglegum sjónarmiðum til hliðar og hinni miklu gagnrýni sem sú framkvæmd hafði fengið, og sagði: Við virkjum samt.

Slíka vinnutilhögun styð ég ekki og legg áherslu á að að sjálfsögðu á að leggja til grundvallar, hvaða ákvörðun sem tekin er, mjög nákvæma, góða og faglega undirbúningsvinnu en ekki bara hrákasmíði sem menn taka síðan pólitíska ákvörðun um, eða ýta henni til hliðar, eins og ríkisstjórn Péturs H. Blöndals gerði á sínum tíma sem keyrði allt áfram á hnefaréttinum einum saman og náttúran varð að gjalda fyrir. Það er ekki sú stefna sem ég vil, herra forseti, og mér finnst dapurt ef hv. þm. Pétur H. Blöndal er enn þá (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að beita eigi því sama handafli áfram og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks beitti varðandi Kárahnjúkavirkjun.