141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að karpa hér um þingsköpin. Það væri þó fróðlegt að fá einhverja utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á það fyrir okkur. Ég óttast það ekki. Auðvitað á málið heima hjá atvinnuveganefnd, það er alveg skýrt í þingsköpum.

Ég geri ekki ágreining um að ráðherrarnir hafi farið eftir lögum í málsmeðferð sinni. Það hefur aldrei komið fram í máli mínu þannig að ég átta mig ekki á því hvað hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir er að fara í þeim efnum.

Aftur á móti eru komin pólitísk fingraför á tillöguna. Þá er ég að vitna til þess að farið er að víkja svo verulega út frá niðurstöðum faghópanna og verkefnisstjórnarinnar. Það eru hin pólitísku fingraför. Nú eru komnar inn skoðanir ráðherranna og óskir og þrýstingur þingflokkanna. Það er augljóst, það þarf ekkert að fara í grafgötur með það. Í þessari tillögu ráða auðvitað pólitísk sjónarmið og skoðanir fólks í þessum stjórnarflokkum, það er alveg ljóst. Þess vegna fjallar tillaga okkar um það að breyta lögum. Tillaga okkar felur í sér lagabreytingu þar sem við breytum lögum þannig að ráðherra verði skylt að kalla saman verkefnisstjórnina að nýju. Að verkefnisstjórninni verði skylt að skila röðun virkjunarkostanna eftir faglegum niðurstöðum fyrir áramót og að ráðherra verði síðan skylt að koma með málið óbreytt í formi þingsályktunartillögu til þingsins fyrir 1. febrúar. Um það fjalla tillögur okkar. Ég geri engan ágreining um það hvernig málið var unnið að öðru leyti en því að hin pólitísku fingraför eru um allt í þessari tillögu. Það sjá það allir sem vilja sjá.