141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er eins og hv. þm. Jón Gunnarsson hafi ekki lesið þær tillögur sem formenn faghópa og verkefnisstjóri settu fram því að þar er einmitt gerð mjög rækilega grein fyrir því vali sem þar fór fram.

Ég vil svo biðja hv. þingmann — þó að ég þoli honum margt — að rugla mér ekki saman við Jón Bjarnason. (EKG: Ótrúlega líkir.) Við erum tveir ólíkir menn með tvö mismunandi viðhorfabúnt, ef svo má segja. Hafi komið fram tortryggni í garð setu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur í verkefnisstjórninni gætti hennar ekki frá mér. Ég hreyfði ekki orði um það mál. Ég vakti hins vegar athygli á því að hún situr þar tilnefnd af forsætisráðherra, sem er að vísu ekki sá forsætisráðherra sem nú situr heldur sá forsætisráðherra sem áður sat. Ég vakti athygli á því að samkvæmt tillögum Sjálfstæðisflokksins á að færa Unni Brá Konráðsdóttur, alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, sérstök völd í málinu því að ósk hv. þm. Jóns Gunnarssonar og Sjálfstæðisflokksins er þannig að verkefnisstjórnin taki við. Hverjir skipa verkefnisstjórnina? Sú verkefnisstjórn sem nú situr og á að taka við málinu nánast fyrir hönd ráðherra og fyrir hönd Alþingis, að því er kom fram frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur áðan, er annars vegar skipuð af fimm eða sex ráðherrum — ég hafði ekki tíma til að telja hve þeir voru margir — og hins vegar af stofnunum og félagasamtökum, Samorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, sveitarfélagasambandinu, Orkustofnun, Umhverfisstofnun o.s.frv. Bíddu, eru þetta fagmenn eða er þetta lýðræðislega kjörið?

Þeim var falið að vinna að röðun virkjunarkosta og það gerðu þeir, ekki að röðuninni 1 og upp í 100, heldur röðuðu þeir með mismunandi hætti. Það sem síðan verður að gerast er það að menn fara á faglegum forsendum en líka með pólitískum (Forseti hringir.) sjónarmiðum og skapa tillögu sem verður að þingsályktunartillögu ráðherra. Ef það er eitthvað skrýtið við þetta, (Forseti hringir.) ef það er eitthvað ófaglegt við þetta, þá veit ég ekki hvað faglegt er og hvað pólitískt er (Forseti hringir.) og efast um að Sjálfstæðisflokkurinn viti það heldur.