141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi bara ekki tekið eftir því að verkefnisstjórnin, sem í sitja ellefu manns og formaður, var valin, eða réttara sagt tilnefnd mestan part, til að stjórna faglegri vinnu sem fólst í röðun kosta, röðun landsvæða og virkjunarkosta út frá ýmsum forsendum. Ég tel að sú vinna hafi tekist vel þó að hún sé ekki hafin yfir gagnrýni og geti ekki verið það.

Þessi hópur var hins vegar ekki kosinn lýðræðislegri kosningu eða skipaður af háyfir-akademíu Íslands til að taka pólitískar ákvarðanir eða svokallaðar strangfaglegar ákvarðanir, það var ekki þannig. Þegar kom að því, hverjir voru þá teknir? Formenn faghópanna fjögurra, faghóps 1, 2, 3, 4, og verkefnisstjórinn voru þá teknir og þeir gerðu þetta. Það sem við þurfum að fá að vita frá Sjálfstæðisflokknum, sem leggur til að þessu ferli sé öllu saman fleygt, er þetta: Hvað er svona ófaglegt við þá vinnu? (Forseti hringir.) Því að þeir gagnrýna bæði breytingarnar frá tillögudrögunum yfir í þingsályktunartillöguna og líka þá vinnu sem þessir fjórir faghópastjórar og verkefnisstjórnin (Forseti hringir.) unnu. Nú bara kemur að Jóni Gunnarssyni (Forseti hringir.) að lýsa því fyrir okkur á þeirri mínútu sem hann hefur til þess.