141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr verðmætasköpun annarra greina en við sjáum hver þróunin er, við sjáum hver staðan er í samfélaginu. Aðrar greinar draga ekki vagninn. Ég er ekki að gera lítið úr því að það vanti hér rannsóknir á gildi ferðaþjónustu o.s.frv. Við getum endalaust deilt um þetta. Þeir sem eru andvígir virkjunum munu endalaust vera þeirrar skoðunar að það þurfi frekari rannsóknir til að komast að einhverri niðurstöðu. En á einhverjum tímapunkti verðum við að taka ákvörðun, við getum ekki velt þessu máli á undan okkur endalaust. Í því felst einhver málamiðlun og þá verðum við að taka ákvörðun út frá bestu vitund.

Það er ekki ákvörðun um að virkja á viðkomandi stað þótt virkjunarkosturinn sé settur í nýtingarflokk. (Forseti hringir.) Þá á eftir að fara fram mikið af rannsóknum, jafnvel umhverfismat og fleira. Eins og ég sagði hér í sambandi við Bitru áðan þá virkjum við ekki þar fyrr en búið er að leysa ákveðin vandamál. (Forseti hringir.) Það er augljóst í mínum huga.