141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður reyndist líka vera grátklökkur og tókst ekki að svara spurningu minni sem er þessi: Er ekki eðlilegt framhald af tillögu sjálfstæðismanna í þessu efni, hinni góðu sáttatillögu, að verkefnisstjórnin sem fimm ráðherrar skipa, einn fulltrúi þeirra er hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, og síðan sex samtök, ákveði þetta, að þetta komi ekki inn á Alþingi? Þegar það kemur inn á Alþingi er nefnilega hætt við að hinir skítugu puttar, hinir vélráðu stjórnmálamenn, komist í málið og þá er allt ónýtt.

Hvaða munur er á þeirri tillögu sem verkefnisstjórnin með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur innan borðs og fulltrúum þessara samtaka gagnvart hinum skítugu puttum þingmannanna og tillögunni frá hinum skítugu hæstv. ráðherrum sem um ræðir?

Er það ekki Alþingi sem tekur lokaákvörðunina? Ef menn ætla að vera verulega byltingarsinnaðir og sáttfúsir í þessu eiga þeir að setja málið yfir á (Forseti hringir.) verkefnisstjórnina sjálfa, skipa hana til eilífðarnóns (Forseti hringir.) og sjá til þess að synir og dætur taki við þegar þeir sem nú sitja falla frá.