141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er tíðrætt um skítuga putta. Ekki veit ég hvers vegna en aftur á móti veit ég að í 6. gr. frumvarpsins sem við leggjum hér til segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ráðherra skal við gildistöku laga þessara kalla saman að nýju þriðju verkefnisstjórn um rammaáætlun sem skilaði skýrslu sinni í júní 2011 og fela henni að gera tillögu að flokkun virkjunarkosta í samræmi við lög þessi.“

Síðan á ráðherrann að skila inn þingsályktunartillögu án þess að koma með skítugu puttana sína í það (Gripið fram í.) á Alþingi og tillagan yrði þá væntanlega samþykkt hér (Gripið fram í.) í þeirri sátt sem við boðum með frumvarpinu.

En hv. þingmaður er nú ekki kunnur fyrir að vilja sáttina þannig að hann skilur ekki þennan hugsanagang.