141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi ekki að sú vinna sem unnin hefur verið síðustu 13 ár í tengslum við rammaáætlun sé hafin yfir allan vafa.

Engin mannanna verk eru hafin yfir allan vafa. En ég fullyrði að sú vinna gefur okkur mun betri grunn fyrir ákvarðanatöku en togstreita á milli tveggja stjórnmálaflokka á síðkvöldum í einhverju ráðuneyti.

Jafnframt er ég sammála hv. þingmanni um að ef einhvers staðar er farið á svig við lög verður að taka á því sérstaklega, en um það snýst umræðan ekki. Hún snýst um geðþóttaákvarðanir ráðherra tveggja stjórnarflokka sem toguðust á um virkjunarverkefni og það endaði með þessari niðurröðun sem er fullkomin vanvirðing við það ferli sem átt hefur sér stað síðastliðin 13 ár.