141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ganga svo langt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn og náttúruvernd séu eins og olía og vatn, þó að skiljanlegt sé miðað við málflutning sumra að draga þá ályktun. Í Sjálfstæðisflokknum eins og í öðrum flokkum eru miklir náttúruverndarsinnar sem vilja vernda og nýta landið út frá því. Það hentar auðvitað mjög vel hinni einföldu heimssýn hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að draga málið þannig upp að þessi niðurstaða sé afrakstur togstreitu á milli Samfylkingar og Vinstri grænna. (TÞH: Auðvitað er það þannig.) Það er þvert á móti kolrangt hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem strunsar út úr salnum eftir þetta málefnalega framlag til umræðunnar.

Mér finnst sjálfum hvergi nærri nógu langt gengið í verndarflokki. Það eru atriði í orkunýtingarflokki sem mér er þvert um geð að samþykkja. Ég nefni sérstaklega Stóru Sandvík, Sandfell og Sveifluháls sem ég mundi mjög gjarnan vilja sjá í biðflokki og jafnvel verndarflokki. Í biðflokki eru allir virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár og ég er alfarið á móti að ráðist verði í þær framkvæmdir og vildi sjá þá kosti í verndarflokki. Ég nefni líka Búlandsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley og Farið við Hagavatn eða Hagavatnsvirkjun sem mér finnst að eigi að vera í verndarflokki.

Það er mjög billegt að draga þetta upp sem einhvern átakapunkt á milli Vinstri grænna og Samfylkingar. Ég held að það séu mjög mismunandi sjónarmið í samfélaginu öllu, innan Sjálfstæðisflokksins, innan Samfylkingar, innan Vinstri grænna að einhverju leyti og Framsóknarflokksins, í raun allra hreyfinga í landinu. Það sem við erum að vinna með hér er auðvitað lifandi plagg sem á að taka mið af umræðu hverju sinni, straumum og stefnu og á aldrei að vera afgreitt í endanlegri mynd.

Það þarf einhver að semja og senda Sjálfstæðisflokknum þá fréttatilkynningu sem felur í sér hin einföldu sannindi að samfélagið er ekki í doða. Það er kolrangt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan, og er einhvers konar frumforsenda allrar atvinnustefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, að samfélagið sé í doða, ekki sé hægt að vekja það til lífsins nema með því að fara að virkja og virkja meira og búa til störf. Þannig eigi samfélagið, stjórnvöld og ríkisvaldið að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang, alveg eins og gert var með Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma sem var hlutfallslega einhver stærsta innspýting fjármagns inn í efnahagskerfi nokkurs lands í hinum vestræna heimi.

Með hvaða afleiðingum? Jú, það urðu örugglega til nokkur störf. Eru þau sjálfbær og framkvæmdin réttlætanleg? Hefur það gengið eftir sem spáð var að umhverfisáhrifin á Austurlandi yrðu viðráðanleg? Nei, það hefur reyndar ekki gengið eftir. Þar verður til risavaxið rykský á hverju snemmsumri. Þar hefur ekki fjölgað um 1.500 íbúa eins og spáð var í áætlunum um Kárahnjúkavirkjun.

Sú hugmyndafræði að ríkisvaldið eigi með fulltingi sinna fyrirtækja að taka risavaxin lán til að framkvæma, til að búa til störf og búa til verðmæti, gengur einfaldlega ekki upp. Það held ég að hljóti að vera hinn stóri sannleikur í málinu og sú lexía sem menn eigi að draga af Kárahnjúkavirkjun.

Þegar ég segi við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Samfélagið er ekki í doða, er ég að horfa til undanfarins árs og þeirra hagtalna sem hafa verið að birtast. Það má vissulega deila um árangurinn en Ísland er ekki samfélag í doða. Og svo ég noti alkunnugt orðalag hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, allir þeir sem hafa aðgang að internetinu vita að það er ekki samfélag í doða á Íslandi. Það er samfélag sem er að vakna til lífsins eftir vissulega erfitt áfall og erfiða tíð en það eru að mörgu leyti stórkostlegir hlutir að gerast í hinum skapandi greinum, í tónlistariðnaði, í kvikmyndagerð, þar sem íslenskt samfélag sjálft og kraftmiklir einstaklingar eru að búa til sjálfir verðmæti og sjálfbær störf án aðkomu ríkisvaldsins, án þess að ríkið og fyrirtæki þess séu að taka risavaxin lán, Ef menn skoða bara ferðaþjónustuna og það sem þar er að gerast er þar kraftaverk á ferðinni að mörgu leyti, gríðarlega jákvæðir hlutir sem ég held að við séum öll sammála um að séu gleðifréttir. Það eru alger öfugmæli að halda því fram að þetta sé doði. Það er auðvitað ekki allt orðið stórkostlegt, það er ekki allt orðið frábært. Við erum ekki búin að bjarga öllu. Það er enn þá fólk sem er atvinnulaust, það er enn þá fólk sem glímir við háar skuldir og erfiða stöðu og við þurfum auðvitað að koma til móts við það. En að vinna út frá þeim grunnpunkti og grunnforsendu að samfélagið sé í doða og allt í neyð og við verðum að ganga inn á dýrmæt og ósnortin svæði og virkja meira til að búa til störf — það er alger öfugmælavísa. Það er algert vanmat á stöðunni.

Ég er þeirrar skoðunar að miklu farsælla sé fyrir stjórnvöld að búa svo í haginn að sú þróun sem er hafin og er sjálfsprottin að mörgu leyti geti haldið áfram. Þá er ég að tala um gleðiefni á borð við kvikmyndagerð, tónlistariðnaðinn og hljómsveitir sem eru að slá í gegn í útlöndum, matvælaiðnað, fatahönnun og húsgagnagerð o.s.frv. Það er miklu arðvænlegra að taka utan um þá þætti og reyna að setja peninga í menntun og byggja þannig undir atvinnusköpun í landinu.

Þegar kemur að vernd og nýtingu íslenskrar náttúru og mati á því erum við auðvitað að tala um mjög mismunandi hluti. Það er í sjálfu sér aldrei hægt að tala um hið endanlega faglega mat, því hvert og eitt okkar verður að meta, á okkar hátt, hvað það er sem við raunverulega viljum ráðast í. Taldar eru upp átta mismunandi forsendur á flokkun virkjunarkosta en ég er viss um að það eru fleiri atriði sem koma þarna við sögu, eins og til dæmis bara það að standa fyrir framan Urriðafoss og velta fyrir sér hvort maður tími þessu. Það er ekkert um það í forsendum á flokkun virkjunarkosta. Tímir maður að fórna Urriðafossi? Er það ekki ágætisforsenda? Ég segi nei, ég tími því ekki.

Ég horfi til þess og hef lesið greinar um það sem er að gerast í Bandaríkjunum. Þar eru menn að endurheimta lífríki og farvegi áa sem hafa verið virkjaðar á síðustu 40, 60 árum. Menn eru að endurheimta um það bil 40 ár á ári. Við eigum örfáar ár á Íslandi og við eigum auðvitað að vernda þær, við eigum ekki að virkja þær. Við eigum að hafa þær eins og þær eru. Hin raunverulegu verðmæti Þjórsár eru í henni eins og hún er núna í Þjórsárdalnum. Svæðið upp á miðhálendið eftir Þjórsárdalnum, upp með ánni með Heklu í bakgrunni, ósnortið svæði — það eru hin raunverulegu verðmæti.

Ástæðan fyrir hinum mikla straumi ferðamanna til Íslands og því að hann vex jafnmikið og raun ber vitni er sú að landið er ósnortið í þessu tilliti að mörgu leyti og merkilegt vegna þess að það er hreint og fagurt og þar hefur ekkert breyst í langan tíma. Það eru hin raunverulegu verðmæti sem við eigum að byggja á. Ef sú neyð kemur einhvern tíma að samfélagið sé raunverulega í doða, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan, eigum við að skoða fleiri kosti, þá má skoða orkunýtingarkostinn betur og sjá hvað er mögulegt (Forseti hringir.) að grípa til. Það er engin ástæða til þess eins og staðan er nú.