141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á fundi atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar síðastliðið vor spurði ég forstjóra Landsvirkjunar að því hvað hann teldi að við þyrftum á miklu að halda. Hvað verðum við að virkja mikið? spurði ég hann. Svarið var: Ekki neitt. Það er engin nauðsyn til að virkja neitt frekar. Þetta er bara spurning um þann hagnað sem við viljum fá af þeim virkjunum sem eru mögulegar. Við fullnægjum algerlega orkuþörf samfélags okkar með því sem við gerum nú þegar og ef við horfum á það sem er að gerast í samfélaginu virðist það þrífast nokkuð vel án þess að við séum að gera mikið. Að vísu er ein virkjun í gangi á Búðarhálsi.

Ég held að það sé einfaldlega þannig að við verðum alltaf að skoða hvað við þurfum að gera. Ég og hv. þingmaður sem er mikill lýðræðissinni gætum verið sammála um að skoða ætti hvern virkjunarkost í nýtingarflokki fyrir sig áður en gripið væri til nokkurra aðgerða. Ég held að það væri fullkomlega eðlilegt að um hvern virkjunarkost yrði fjallað með opinberum hætti, hann skoðaður, hvaða afleiðingar hann hefði, ekki bara með tilliti til ferðamanna og útivistar heldur líka til mengunar o.s.frv. Svo yrði það einfaldlega borið undir atkvæði hvort ráðast ætti í þann virkjunarkost eða ekki. Væri það ekki hin fullkomna sátt í málinu? Þá er það þjóðin sjálf sem nýtur góðs eða ills af virkjunarkostinum, sem ákveður að ráðast í framkvæmdirnar eða ekki. Er það ekki mesta sáttin?