141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:33]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í orðaskiptum hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Birgis Ármannssonar á dögunum spurði þingmaðurinn hvaða störf hæstv. ríkisstjórn hefði skapað og af hverju væri ekki verið að gera meira í því og óskaði eftir svörum. Ég spurði sjálfan mig þar sem ég sat í sæti mínu: Um hvað er hv. þingmaður að tala? Hvernig störf vill hann skapa? Vill hann endurtaka leikinn í aðdraganda 2008? Fylla allt landið af byggingarkrönum, fá fullt af fjármagni að láni frá Þýskalandi og víðar og búa til nýja bólu, nýja þenslu sem engin innstæða er fyrir og springur síðan í andlitið á okkur? Er ekki eðlilegra — og um þetta hljótum við hv. þingmaður að vera sammála — að til verði í landinu störf sem eru sprottin upp úr áhuga og framtaki einstaklinganna, (Gripið fram í.) eins og við sjáum vera að gerast? — Ég hlýt að ákveða það sjálfur, hv. þingmaður, hvernig ég svara spurningunni. (PHB: … það er ekkert svar.) Seint verður hv. þingmaður sáttur við svörin frá mér, það er pottþétt.

En ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegra að sú þróun sem við höfum verið að fylgjast með fái að spretta, akur hinna þúsund blóma fái að blómstra eins og hann gerir núna, eins og við sjáum og allir sem hafa aðgang að internetinu geta borið vitni um, frekar en að ríkisvaldið grípi inn í með þeim hætti sem hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti á dögunum: Nú verður bara að virkja meira. Hver er þörfin fyrir það og hvers lags störf verða til af því og hvers vegna? Til að geta endurtekið leikinn frá 2007?