141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:38]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir tilvitnun hv. þingmanns í sjálfan mig á þessum fundi. Þetta var vel mælt, ég var búinn að gleyma þessu.

Ég lýsi mig algerlega sammála hv. þingmanni í þessum efnum og kemur kannski fáum á óvart. Við verðum að geta treyst orkunýtingarflokknum ef svo má að orði komast. Ég ætla auðvitað að samþykkja þessa tillögu. Mér finnst hún mikið framfaraskref og gæfuspor fyrir íslenskt samfélag. Það sem nú þegar er komið hér og sá hluti af því sem allir eru sáttir um er stórkostlegur árangur fyrir okkur öll og mjög mikilvægt að halda því til haga.

Við erum auðvitað ósammála um tiltekin atriði. Þegar ég segi að við verðum að geta treyst orkunýtingarflokknum meina ég að þar með er ekki sagt að menn geti ráðist strax inn á þau svæði og gripið haka og skóflu og byrjað. Það þarf að uppfylla ákveðnar forsendur. Við þurfum að vera búin að ákveða með hvern flokk fyrir sig í hvað við ætlum að nýta hann, hvers vegna við ætlum að gera það, hvaða forsendur liggja til grundvallar og út frá hvaða stöðu við vinnum. Ef við vinnum út frá mismunandi forsendum, eins og til dæmis mínum sem eru þær að samfélagið sé að vakna til lífsins eða út frá forsendum hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem segir að samfélagið sé í doða, verður útkoman og það sem á eftir kemur auðvitað mjög mismunandi.

Þess vegna þarf að skapa sátt um það hvers vegna og í hvaða stöðu það er sem við ráðumst í frekari framkvæmdir.