141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að mér fyrirgefist að trufla þetta skjallbandalag þeirra hv. þm. Marðar Árnasonar og Róberts Marshalls. Ég geri ekki ráð fyrir því að ræða mín framkalli álíka viðbrögð og milli þeirra tveggja áðan enda er leikurinn svo sem ekki til þess gerður.

Það eru tvö atriði sem mig langar að víkja að úr máli hv. þm. Róberts Marshalls sem flutti hófstillta ræðu þótt ég væri ósammála ýmsu sem hann sagði. Í fyrsta lagi vitnaði hann til orða forstjóra Landsvirkjunar á fundi atvinnuveganefndar og umhverfis- og auðlindanefndar. Ég sat líka þennan fund og hlustaði vel á það sem forstjóri Landsvirkjunar sagði og ég hef heyrt hann segja svipaða hluti áður. Það sem forstjóri Landsvirkjunar var einfaldlega að benda á var þetta: Við Íslendingar værum svo gæfusöm að við byggjum við mikla gnótt orkuauðlinda, við ættum val. Við gætum tekið um það upplýsta ákvörðun hvort við vildum virkja tiltekna virkjunarkosti eður ei og þá mundum við auðvitað vega saman efnahagslegan ávinning og mögulega fórn náttúrunnar.

Þessu er ekki til að dreifa í mörgum öðrum löndum. Þar hafa menn einfaldlega ekki þetta val. Þar eru ríkin í þeirri stöðu að þurfa á orkunni að halda og mjög víða er ekki um að ræða sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda eins og við höfum tíðkað áratugum saman heldur nota menn þar orkuauðlindir sem eru tæmanlegar og sem menga. Við höfum hins vegar þetta val og við höfum kosið að nýta orkuauðlindir okkar meðal annars til að búa til verðmæti, bæta lífskjör, auka fjárfestingar, gera atvinnulífið fjölbreyttara og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað eftirsóknarvert hlutskipti.

Í annan stað vék hv. þingmaður að samspili virkjana og þenslu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma voru miklar fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun og álverinu á Reyðarfirði. Það var hins vegar ekki það sem skóp mestu þensluna á Íslandi á þessum árum. Þær framkvæmdir voru kannski upp á 300 milljarða kr. á núvirði sem dreifðust yfir nokkur ár. Og í samhengi við þjóðarframleiðslu upp á 1.500 milljarða kr. og í samhengi við þá miklu innspýtingu sem varð á erlendu fjármagni af allt öðrum toga og allt öðrum ástæðum er ljóst að þær ollu ekki þenslunni og viðskiptahallanum á Íslandi, öðru nær. Við sjáum núna að þessi virkjun og framleiðsla hennar skapar okkur miklar gjaldeyristekjur, verðmæt störf og byggðafestu á því svæði þar sem framkvæmdirnar áttu sér stað.

Hv. þm. Mörður Árnason talaði áðan um pólitískt þras og tæknileg atriði þegar hann vék að málflutningi ýmissa þingmanna sem hafa gagnrýnt það fyrirkomulag sem var viðhaft á lokametrunum við gerð þingsályktunartillögunnar sem nú liggur fyrir. En þetta er ekki þras um tæknileg atriði, þetta er ekki pólitískt þras í þeim skilningi vegna þess að við erum að tala um grundvallarvinnubrögð.

Ég hef á síðustu dögum verið að skoða samhengið lengra aftur í tímann þegar menn settu af stað vinnuna sem seinna var kölluð vinna að rammaáætlun. Sú vinna á sér gríðarlega langa forsögu, ekki bara til ársins 1999 þegar verkefnisstjórninni var hleypt af stokkunum heldur miklu lengri. Hún kemur fram í samþykktum ríkisstjórna, samþykktum Alþingis og umræðum á þingi þar sem menn veltu einmitt fyrir sér hvernig væri hægt að rífa umræðuna úr hinu pólitíska þrasi, sem ég hef tekið þátt í og margir hér inni, um einstaka virkjunarkosti og hvernig ætti að standa að þessum málum. Þá var hugsunin sú að rífa umræðuna upp úr þessum hjólförum og koma málinu í þann búning að ætla mætti að um það yrði meiri pólitískur samhugur. Og það var dálítið eftirtektarvert að það voru einmitt stjórnmálaflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem oft hafa verið taldir sérstakir talsmenn virkjana, sem höfðu pólitíska forustu um það árið 1999 að fela þessum verkefnisstjórnum að undirbúa málið. Af hverju var það gert? Jú, vegna þess að menn trúðu því að þannig væri hægt að færa umræðuna úr pólitísku þrasi í faglegri umræðu þar sem færasta fólki væri falið að leita að skynsamlegri niðurstöðu sem meiri sátt gæti orðið um.

Það er líka athyglisverð staðreynd, þegar maður skoðar þetta aftur í tímann, að verkefnisstjórnirnar lögðu áherslu á það frá upphafi að verkefnið sem þær væru að takast á hendur væri í raun þríþætt að skipulagi til. Það var í fyrsta lagi verkefnisstjórn. Undir þeirri stjórn störfuðu faghópar og síðan yrði búinn til mjög öflugur samráðsvettvangur. Hann hefur síðan þróast í áranna rás eftir því sem möguleikar á þeim sviðum hafa orðið fleiri. Þessi vinna gekk öll vel í meginatriðum og pólitísk átök um vinnu samráðshópsins og verkefnisstjórnarinnar urðu mjög lítil. Það var ekki fyrr en ákveðið var með lagasetningu frá Alþingi að búa til viðbótarstoppustöð í þessu máli, sem var sú að þegar verkefnastjórnin hefði skilað af sér ákveðnum tillögum færu þær til tveggja ráðherra sem legðu síðan málið fyrir Alþingi, að átök urðu.

Út af fyrir sig má kannski segja að ekki sé óskynsamlegt að pólitísk forusta hverju sinni komi með einhverjum hætti að málinu. En þegar búið er að marka leikreglurnar eins og hefur verið gert frá árinu 1999 og með þeim aðdraganda sem ég rakti lengra aftur í tímann, er gríðarleg ábyrgð lögð á herðar hæstv. ráðherra sem taka það verkefni að sér. Þá þarf að gera ráð fyrir að ráðherrarnir vinni mjög faglega. Eftirtektarvert er hins vegar að eftir að verkefnastjórnin og faghóparnir höfðu farið yfir þessa tugi virkjunar-, nýtingar- eða verndunarkosta hafði ríkt um það ágæt pólitísk sátt en það var ekki fyrr en á síðustu metrunum, síðustu mánuðina eftir að hæstv. ráðherrar höfðu fengið málið í hendurnar, að átökin fóru á stað.

Nú er búið að þrátta um það meiri hluta þessa dags eftir að umræðan hófst hvort þetta sé faglegt eða ófaglegt, skynsamlegt eða óskynsamlegt. Ég held að við ættum að minnsta kosti að draga þann lærdóm af umræðunni í dag að þetta fyrirkomulag í höndum hæstv. tveggja ráðherra hefur ekki tekist vel. Það sem við vorum að reyna að gera í 20 ár hefur með öðrum orðum á vissan hátt — ég vil ekki segja mistekist heldur hefur það beðið hnekki vegna þess að sá friður sem ríkti um þessa vinnu var rofinn. Það myndaðist tortryggni og ekki að ástæðulausu. Hér var vísað til þess að hæstv. ráðherrar hafi tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem fram hefðu komið. Þau sjónarmið höfðu auðvitað líka komið fram í undirbúningi vinnunnar sem áður hafði verið unnin því þar hafði líka átt sér stað samráð, mjög víðtækt samráðsferli. Þar var tekið tillit til sjónarmiða, þau skoðuð frá öllum hliðum og þar fram eftir götunum.

Það sem lá að baki þessari aðferðafræði í lok ferlisins var bara hinn pólitíski veruleiki. Hver var hann? Hann var sá að innan beggja stjórnarflokkanna var mikil andstaða við ýmsa virkjunarkosti sem höfðu verið settir í nýtingarflokk. Það kristallaðist til dæmis í ályktun frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 28.–30. október 2011 þar sem ályktað var um að flokknum yrði falið að stækka verndar- og biðflokkinn og hverfa frá þeim tillögum sem höfðu verið lagðar fram. Það var sá pólitíski veruleiki sem þessir tveir hæstv. ráðherrar stóðu frammi fyrir. Það er sá pólitíski veruleiki sem birtist okkur núna í þeim tillögum sem hafa skapað úlfúðina og átökin í málaflokknum, illu heilli. Ríkisstjórnin stóð allt í einu frammi fyrir því að þurfa ekki bara að vega og meta nýtingarkosti, verndunarkosti, biðflokkskosti, heldur stóð hún frammi fyrir því að vernda sitt eigið pólitíska líf. Um það snerist allt þetta mál. Ríkisstjórnin var að reyna að verja sitt pólitíska líf, skapa sér framhaldslíf um að minnsta kosti einhverra mánaða skeið og þess vegna varð niðurstaðan sú sem við sjáum hér.

Ég vil segja, af því að hér hefur verið spurt um það, að auðvitað er ekkert af mannanna verkum hafið yfir vafa. En það sem hefur fyrst og fremst skapað vandann í þessu máli er hversu óhönduglega hefur verið haldið á málum á síðustu metrunum. Þess vegna hefur þessi mikla, (Forseti hringir.) merkilega og góða vinna því miður beðið hnekki. Það er ekki vegna þeirrar vinnu sem fram fór í fortíðinni (Forseti hringir.) heldur vinnunnar sem núna er í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.