141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er mikill kostur við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að hann hefur verulega þingreynslu, sennilega þá þriðju eða fjórðu mestu sem þingmenn hafa á þinginu núna. Ókosturinn við hv. þingmann er hins vegar sá að minni hans er valkvætt, hann man það sem hann vill muna en gleymir því sem ekki hentar hverju sinni eða lætur það að minnsta kosti ekki í ljósi við okkur félaga sína.

Ég hef svolítið minni þó ég hafi ekki verið jafnlengi á þingi og hann. Ég veit hvernig rammaáætlun hófst og ég veit líka hver er hinn mikli munur á fyrri áföngum rammaáætlunar og þeirri sem við erum núna að eiga við. Rammaáætlun var vissulega á fyrri stigum gerð með nýstárlegum og góðum aðferðum sem nú hafa verið bættar. Árið 2003 kom, að mig minnir, fyrsta skýrslan um rammaáætlun sem þá hafði verið lengi í gangi en hún hafði enga merkingu því að þegar iðnaðarráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson studdi þá kom og var spurður til hvers hún væri sagði hann: Þetta á að vera uppi í hillu hjá orkufyrirtækjunum til að þau geti skoðað það.

Núna erum við hins vegar að búa til leikreglur til að geta náð yfirsýn yfir þann vanda sem við eigum við að stríða og þá kosti sem við eigum í orkunýtingu og verndarnýtingu landsvæða.

Það sem ég fagna hins vegar er það að mér heyrist að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tali núna eins og hin faglega niðurstaða sé sú niðurstaða sem fram kom í tillögudrögunum frá faghópastjórunum fjórum og verkefnisstjóranum. Ég skildi hv. þingmann þannig og vona að hann upplýsi okkur um hvernig það er því að munurinn á henni og tillögum ráðherranna, sem eru ófaglegar og pólitískar og ómögulegar og afleiðing málamiðlunar milli stjórnarflokkanna, eru nokkrir kostir á tveimur svæðum í biðflokki, þ.e. að ekki séu teknar ákvarðanir um þessa kosti heldur séu þeir settir í biðflokk. (Forseti hringir.) Ef þetta er hin pólitíska deila milli mín og hv. þingmanns þá fagna ég því því að það er tiltölulega auðvelt (Forseti hringir.) að ræða um þetta.