141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt eitt andartak að ég væri líka kominn í skjallbandalag hv. þm. Marðar Árnasonar en það rjátlaðist af hv. þingmanni eftir nokkrar setningar. Hann sagði að það mætti virða mér það til hróss að hafa nokkra þingreynslu en hins vegar deildi ég ekki allri minni þekkingu, ef hún væri til staðar, með öðrum félögum mínum og væri með valkvætt minni. Ég skal í fullri hreinskilni viðurkenna að minni mitt er brigðult eins og ég hygg að sé með minni hv. þingmanns líka og okkar flestra.

Það sem ég rakti í máli mínu hér áðan og reyndi að gera með tiltölulega hófstilltum hætti, að þessu sinni að minnsta kosti, var að þessi mál þróuðust. Það sem var að gerast árið 1999 gerðist ekki í einhverju tómarúmi heldur var það afrakstur af mikilli umræðu og því að menn höfðu verið að reyna að koma málum út úr því hjólfari sem þau voru í, eins og ég orðaði það áðan, sem var mikið átakahjólfar. Það getur vel verið að einhverjir hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherrar hafi ekki haft mikla trú á þessu ferli fyrir 10 árum. En ég held hins vegar að málin hafi þó þróast með þeim hætti sem hefur komið fram í þessari umræðu, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og að ég hygg Framsóknarflokksins hafi orðið við því ákalli að við reyndum að virða það ferli sem var sett af stað og vinna þessa hluti í faglegu samhengi eins og nokkur væri kostur á.

Auðvitað stöndum við frammi fyrir vali. Auðvitað stöndum við frammi fyrir mati. Okkur er það öllum ljóst og þess vegna er skynsamlegast fyrir okkur í því sambandi að styðjast við þá bestu fáanlegu þekkingu sem mögulega er til staðar.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru ekkert óskaplega margir virkjunarkostir sem við bendum á sem vikið er frá en þeir eru mjög veigamiklir. Þeir skipta miklu máli í efnahagslegu tilliti og þeir skipta miklu máli í öðru tilliti líka sem er það að engin efnisleg rök standa fyrir því að víkja frá til dæmis virkjun í neðri hluta Þjórsár, (Forseti hringir.) eins og við höfum margoft gert grein fyrir.