141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú erum við báðir, ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, aðeins eldri en þegar við settumst fyrst á þing, hann sem aðalmaður árið 1991 og ég kom fyrst sem varamaður árið 1995. Mínu minni er þannig farið að ég er vissulega farinn að gleyma ýmsum atriðum, símanúmerum, nöfnum og smáatriðum í hinu daglega lífi samtímans, en ég man það sem skiptir máli. Minni hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar er orðið svo slakt að hann gleymir spurningum sem hann var spurður að fyrir fimm eða tveimur mínútum og reyndi ekki að svara spurningu minni sem var einföld þótt ég hefði þurft að klæða hana í mállegan búning sem var kannski fullskrautlegur.

Hún var þessi: Skil ég það rétt að hv. þingmaður telji að tillagan sem varð efni í drög að þingsályktunartillögu sem fór í víðtækt samráðsferli og umsagnarferli í fyrrasumar sé hin faglega tillaga sem hinir skítugu puttar ráðherra og flokka hafi svo komið og eyðilagt eða erum við að tala um eitthvað annað? Það er þetta sem ég vil fá að vita vegna þess að munurinn á tillögudrögunum annars vegar og þingsályktunartillögunni hins vegar, eins og hún lítur út núna, er sá sem ég tók fram áðan. Það eru nokkrir kostir, samtals sex ef menn vilja skilgreina eða telja þá, þeir eru vissulega í skýrslu verkefnisstjórnarinnar, á tveimur svæðum, sem ekki eru teknir úr orkunýtingarflokki og settir í verndarflokk eða úr verndarflokki og settir í orkunýtingarflokk heldur settir í biðflokk og tiltekið hvernig skuli með fara. Ég er kannski ekki alveg sáttur við þetta en svona er þetta. Næsta verkefnisstjórn á svo að skila áliti um þessa kosti innan (Forseti hringir.) mjög skamms tíma, ég held að það sé hálft ár eða eitt og hálft.