141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegur háttur hv. þingmanns að draga menn í dilka og leggja eitthvert mat á minni þeirra. Ég hygg að hv. þingmaður sé ekki í sérstaklega góðum færum til þess. Hann reynir gjarnan að flokka það sem honum finnst henta þegar hann heldur áfram málflutningi sínum.

Ég neita því að ég hafi ekki reynt að svara spurningum hv. þingmanns, það gerði ég svo sannarlega. Ég var einfaldlega að vekja athygli á því að þetta mál hefði farið í gegnum tiltekið ferli sem væri þannig að á þeim tíma hefði verið reynt að meta faglega hvaða tilteknir kostir ættu að fara í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk og síðan var að lokum búin til flokkun eins og við vitum sem kom frá þeirri verkefnisstjórn sem vann við það. Það sem ég hefði talið skynsamlegast væri að fara yfir þessa vinnu, og það er sú tillaga sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjum til, þar sem væri þá reynt með mjög faglegum hætti áfram að þróa þetta í fullkomið tillöguform til okkar þingmanna sem við gætum þá tekið afstöðu til. Það er auðvitað alveg rétt, samráðsferlinu lýkur ekki við það að vinnu þessara faghópaverkefnisstjórna ljúki. Því samráðsferli lýkur ekki fyrr en Alþingi hefur lokið störfum sínum. Ég hygg að sú vinna sem var hafin undir forustu atvinnuveganefndar sl. vor hafi verið mjög góð vísbending um það sem koma ætti í þeim efnum. Þar var kallað til eftir mjög mörgum álitum og þau komu.

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að ýmislegt af því sem hefur verið að gerast í dag sýni að það sé ekki endilega svo mikið bil á milli manna, en ágreiningurinn er um vinnubrögðin á síðustu metrunum (Forseti hringir.) sem ég held að hafi verið ógæfan í öllu þessu og hafi valdið átökum (Forseti hringir.) sem eru sennilega ónauðsynleg.