141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst þessi umræða hafa tilhneigingu til að verða svart/hvít. Hún er svolítið dramatísk og öfgafull. Það mætti til dæmis skilja á mörgum þingmönnum sem hafa talað að til standi að virkja ekki neitt, þetta sé einhvers konar rökræða um það hvort eigi að virkja eitthvað yfir höfuð, jafnvel séu einhverjir hérna inni sem ætla ekkert að virkja. Talað var um virkjunarsinna og þá sem ekki eru virkjunarsinnar.

Ég held að mikilvægt sé að minna sig á hvað verið er að gera. Það eru blússandi virkjunarframkvæmdir í gangi í þessum töluðu orðum. Búðarhálsvirkjun er ansi stór virkjun. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir 16 virkjunarkostum. Það er enginn að tala um að virkja ekki neitt.

Mér finnst það athyglisvert í umræðunni að ekki er endilega mikið deilt um orkunýtingarflokkinn. Ég held reyndar að það séu mjög margir sem vilja fara hægar í sakirnar, þar á meðal ég, í þessum efnum og eru að halda svolítið aftur af sér og reyna að skapa sátt um þó þennan orkunýtingarflokk sem inniheldur 16 virkjunarkosti. Það er heldur ekki mikið deilt um verndarflokkinn. Það er ekki mikið minnst á hann í umræðunni. Það eru fjölmargir virkjunarkostir settir í verndarflokk. Það er verið að deila um sex virkjunarkosti af 31 sem eru í biðflokki. Biðflokkur felur það ekki einu sinni í sér að menn ætli að hætta við þá virkjunarkosti heldur ætla menn að skoða þá betur. Það er öll deilan sem er um þetta plagg.

Ég held að það ferli sem rammaáætlunin var sett í, þetta 13 ára ferli, jafnvel lengra, og við erum að horfa á niðurstöður úr núna hafi skilað verulega góðum árangri, ef ég horfi á þetta út frá því hvað við erum þó að reyna að ná sátt um og hvað við erum í raun og veru að deila um, sex virkjunarkosti í biðflokki.

Við skulum þá aðeins tala um pólitíkina. Auðvitað eru þetta pólitísk spursmál, við erum að ræða umhverfispólitík. Mér finnst býsna áberandi þau sjónarmið margra — og kom kannski ágætlega fram í orðum hv. þm. Péturs Blöndals sem hefur sagt hér ítrekað að hann syrgi hvern þann vatnsflaum sem fer óvirkjaður til sjávar. Það lýsir ákveðnu viðhorfi, ákveðinni umhverfispólitík sem ég vona að meiri hluti þingmanna aðhyllist ekki. Ég aðhyllist það sjónarmið að telja ástæðu til að fara varlega í að valda óafturkræfum skaða á náttúruperlum og náttúru Íslands. Ég lít svo á að það eigi að vera hlutverk okkar að gæta hagsmuna komandi kynslóða þegar við göngum um náttúruna. Svona er nú sjónarhóll minn og fjölmargra annarra þingmanna ólíkur, t.d. hv. þm. Péturs Blöndals, sem tala á þeim nótum hér inni.

Það mun ráða vissum úrslitum um hverjar niðurstöðurnar verða varðandi þessa sex virkjunarkosti í biðflokki hvernig meiri hlutinn liggur í þessum sal. Það skiptir auðvitað máli og það verður að fá að skipta máli. Þeir sem vilja fara varlega eru opnari fyrir því að hlusta á rökstuddar skoðanir og rökstutt álit sem segir að við eigum að fara varlega og bíða með að virkja ákveðin svæði á Íslandi. Það er einfaldlega merking þess að vilja láta náttúruna njóta vafans að hlusta á slíkt, alveg sama á hvaða stigi það kemur inn. Það er viðurkennt ferli í Alþingi að þingsályktunartillögur og lagafrumvörp eru send til umsagnar og að sjálfsögðu eigum við líka að taka mark á þeim í þessu máli.

Þetta er deilan eins og hún birtist mér. Ég set mig alfarið í þann flokk sem vill fara varlega og ég fagna því mjög að þeir sex kostir sem deilt er um séu komnir í biðflokk. Ég verð að segja eins og sumir þingmenn sem hér hafa talað, t.d. hv. þm. Róbert Marshall, að ég gæti alveg hugsað mér að ganga lengra og setja fleiri virkjunarkosti, t.d. suma á Reykjanesskaga, í biðflokk. En þetta er öll deilan, sex virkjunarkostir af 31 í biðflokki. Menn vilja fjölga orkunýtingarkostum úr 16, sem er ansi ríflegt, upp í 22 og telja að það sé einhvers konar grundvöllur að sátt í málinu. Ég skrifa ekki alveg undir þá nálgun.

Ég vil tala aðeins núna, á þeim fjórum mínútum sem ég á eftir, um sáttina varðandi virkjunarmál á Íslandi. Þá ætla ég að segja hvað það er sem ég er mest ósáttur við og mér finnst ekkert hafa verið fjallað um í umræðunni um rammaáætlun. Ég er ósáttur við auðlindanýtingarstefnuna. Ég er ósáttur við það hvað við höfum virkjað mikið á undanförnum áratugum á Íslandi en nánast engir eða að minnsta kosti smápeningar hafa komið í beinum arði inn í ríkissjóð frá þeim virkjunum. Við erum búin að virkja til stóriðju á undanförnum áratugum og selja orkuna nánast á kostnaðarverði. Í þessu birtist auðvitað ákveðin atvinnustefna, ákveðin auðlindastefna, sem ég leyfi mér að segja að ég geti ekki verið sáttur við. Hún byggist á því að nýta orkuna þannig að við eigum að virkja með ríkisábyrgð, fá mjög orkufreka kaupendur sem geta komið með mikið fjármagn á skömmum tíma, skapað störf á afmörkuðum stöðum á landinu og valdið tilheyrandi þenslu. Orkuauðlindin er nánast færð þeim kaupendum á kostnaðarverði í þágu þeirrar atvinnustefnu. Ég er ósáttur við það. Ég er mjög ósáttur við þessa nálgun. Ég er ósáttur að við skulum nota orkuauðlindina til einhvers konar handstýrðrar atvinnuuppbyggingar þar sem við færum oft erlendum stórkaupendum orkuauðlindina nánast á silfurfati.

Það er augljóst að Landsvirkjun er að reyna að breyta um stefnu í þessum efnum og er að reyna að fá hærra orkuverð til stórkaupenda. Mér finnst þetta vera forgangsmál. Nýjustu tölur sýna, þær eru líklega orðnar eins árs gamlar, að Landsvirkjun hafi skilað í beinum arði inn í ríkissjóð frá 1965 um 13 milljörðum — nú skiptir máli við hvaða gengi maður miðar — en 110 milljónir bandaríkjadala eiga að segja alla söguna. Við eigum að vera ósátt við þetta. Við erum búin að fara í allar þessar virkjanir, virkja auðlindir okkar með öllum þeim deilum sem því fylgir og frá 1965 hefur fyrirtæki sem við eigum, Landsvirkjun, skilað 13 milljörðum í ríkiskassann. Það er auðvitað vegna þess að arðsemiskrafan hefur verið allt of lág í orkusölu til orkukaupenda. Þetta er skoðað ágætlega í skýrslu sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson gáfu út í nóvember 2011 þar sem fjallað er um arðsemi orkusölu til stóriðju frá Landsvirkjun. Þar segir, með leyfi forseta:

„… verður ekki séð að starfsemi fyrirtækisins hafi skilað beinni auðlindarentu. Hafi rentan verið til staðar hefur henni þess í stað verið dreift til orkukaupenda, …“

Ég er ósammála þessari stefnu. Ég teldi ærna ástæðu til að einbeita sér að því að taka upp orkusölusamningana sem hafa verið gerðir í landinu til stórkaupenda og reyna að fá hærra verð fyrir auðlindina sem við erum þó að selja. Ég tel að við eigum að reyna að koma umframorkunni sem er í kerfinu nú þegar í verð, helst hátt verð, það verði til dæmis fjölbreyttur grænn iðnaður eða sæstrengur sem væri mögulega hægt að selja í gegnum, það sé besta leiðin, og síðan eigum við að einbeita okkur að því að virkja skynsamlega í samræmi við rammaáætlun og fara í þá virkjunarkosti sem hér er lagt til að verði farið í og reyna að fá skikkanlegt verð fyrir orkuna. Ég held að fjölbreyttur grænn iðnaður sé reiðubúinn að greiða hátt verð fyrir græna orku, skapa umtalsverðan (Forseti hringir.) arð inn í ríkiskassann og nota svo þann pening til atvinnuuppbyggingar og til að styrkja innviðina (Forseti hringir.) og þar fram eftir götunum til að skapa grundvöll fyrir framtak einstaklinganna og samtaka þeirra. Það held ég að sé alvöruatvinnustefna.