141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst baráttan snúast um að þetta: Um helmingur, ég veit ekki hvort það er meiri hluti, þingmanna vill, kannski út af kreppu, rjúka í allar mögulegar virkjanir sem hægt er að rjúka í og byggja upp tvær verksmiðjur, eina í Helguvík og aðra á Bakka, fyrir einn orkufrekasta iðnað sem um getur og er álbræðsla og spyrja ekki einu sinni um orkuverðið. Það er þessi umgengni við auðlindina sem ég mótmæli. Ég get ekki verið sáttur við neinar einustu virkjanir á Íslandi ef þessi stefna verður óbreytt. Þetta er stefnan sem hefur verið við lýði á Íslandi. Vissulega hefur hún skilað einhverjum arði, en ef ég skil forstjóra Landsvirkjunar rétt og þá fjölmörgu hagfræðinga og matsfyrirtæki sem hafa skilað skýrslu um starfsemi Landsvirkjunar á undanförum árum þá er hægt að breyta um stefnu í þessum efnum. Það er hægt að virkja hófsamlega á Íslandi, einbeita sér að því að fá hátt orkuverð og láta þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, greiða innan tiltölulega skamms tíma verulegan beinan arð í ríkissjóð vegna þess að ríkið fær einfaldlega hærra verð fyrir orkuna.

Þessa stefnu tel ég að við verðum að taka ef það á einhvern tíma að vera sátt um einhverja virkjunarstefnu yfir höfuð. Mér finnst þetta vera fyrsta skrefið.