141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fjölda ára reyndu Íslendingar að selja íslenska orku. Það gekk mjög hægt, það var enginn kaupandi, en upp á síðkastið hafa hrannast inn kaupendur.

Mér finnst sjálfsagt að fara að tillögu hv. þingmanns og legg til að hann verði bara settur yfir það að selja orkuna á eins háu verði og hægt er til gagnavera og annarra. Mér finnst persónulega, og ég hef sagt það hér áður, að við séum komin með of stóra bita í álkökuna. Við þurfum að dreifa áhættunni því að það geta orðið áföll í áli.

Í þeirri stöðu sem við erum í í dag — fólk er atvinnulaust, fólk er vonlaust, fólk flytur til útlanda, fólk neyðist til að fara á sveitarfélögin af því að atvinnuleysisbæturnar eru útrunnar og svo segja menn að atvinnuleysið sé að minnka en atvinnan skreppur saman — finnst mér sjálfsagt að reyna að koma einhverju í gang.

Ég vil ekkert rjúka til og virkja hvað sem er fyrir hvaða verð sem er. Ég vil nefnilega fá gott verð fyrir orkuna, virkilega, því að ég lít á hana sem auðlind þjóðarinnar sem getur staðið undir öflugu velferðarkerfi, enn öflugra en við höfum í dag, sem er ekkert voðalega gott, og tryggt fólki há laun og góð lífskjör. Þetta er það sem mér finnst.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er: Hvað finnst honum um það þegar menn eru búnir að ná sátt um þessa verkefnisstjórn og síðan kemur önnur fylkingin og breytir sáttinni? Gefur það ekki hinni fylkingunni færi á því að gera nákvæmlega það sama þegar og ef hún kemst til valda?