141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að hafa ekkert allt of miklar áhyggjur af því að við getum ekki náð sátt um að sex virkjunarkostir séu settir í biðflokk. Þrátt fyrir allt, þó að slíkt yrði gert, væri ærið verkefni eftir í þessum málum. Það eru 16 virkjunarkostir þarna inni og sú stefnubreyting, að einbeita okkur að því að reyna að fá sem mest verð fyrir orkuna, bæði þá orku sem við framleiðum núna og þá orku sem væntanlegar virkjanir, þessar 16, geta framleitt, er alveg nógu mikið verkefni, held ég. (PHB: En sáttin?)

Það sem getur hins vegar aftrað þessu verkefni er að við förum núna, vegna þess að það er kreppa eða hefur verið og atvinnuleysi, að virkja mjög mikið í flýti með tilheyrandi þenslu og selja alla þá orku sem verður til. Það er verulega mikil orka sem til dæmis 360 þús. tonna álver í Helguvík þarf og álverið í Helguvík mundi væntanlega vilja fá orkuna á svipuðu verði og selt hefur verið til annarra álvera. Ég hef áhyggjur af því að allt of margir þingmenn skilji ekki hvað er í húfi. Ef öll þessi orka yrði seld út af kreppu á gjafvirði til eins stórs orkukaupanda getum við gleymt því að byggja hér upp samfélag sem nýtur verulegs arðs af grænum iðnaði, af orkusölu, á ári hverju.

Nú skal ég tala um atvinnustefnu. Ég tel að við eigum að nýta arðinn sem þannig skapast til að skapa almennan grundvöll fyrir samfélagið, fyrir framtak einstaklinganna, fyrir fjölbreytni. Ég vona að (Forseti hringir.) hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé sammála þessum áherslum, annað kæmi mér á óvart.