141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Þetta mál var rætt í þingsal í vor. Þá hélt ég ræðu þar sem ég tók á ýmsum efnisatriðum. Ég ætla ekki að endurtaka það heldur bregðast við nokkrum punktum og áherslum sem hafa komið fram hér í dag til að hnykkja á ákveðnum atriðum sem mér finnst mikilvægt að komi fram í ljósi umræðunnar.

Í fyrsta lagi hafa hér ýmsir talað eins og verið sé að bera á borð einhvers konar pólitískan óskalista. Ég get alveg sagt það fyrir mína parta að þessi niðurstaða er langt frá því að vera minn óskalisti. Mér finnst þetta vera röng niðurstaða. Mér finnst það til dæmis röng niðurstaða að Reykjanesskaginn, Sveifluháls og fleiri svæði, Krýsuvíkursvæðið sérstaklega, Reykjanesfólkvangur, sé ekki í vernd og að Reykjanesskaginn sé í það minnsta ekki í bið. Ég get nefnt ýmis svæði um land allt sem mér finnst ekki eiga að vera þar sem þau eru flokkuð nú.

Það sem meira er, vegna þess að hér er mikið talað um fagleg rök, ég mundi treysta mér til að bera fyrir vali mínu mjög sterk fagleg rök og rökstudd af ýmsu fagfólki. Ég hef áhyggjur af Mývatni, eins og reyndar ýmsir aðrir, og því sem er að gerast þar. Ég hef líka miklar áhyggjur ásamt ýmsum öðrum af óheyrilegum sóðaskap í umgengni við háhitasvæði eins og Þeistareyki og svo má lengi telja.

Það að halda því fram að hér sé einhver pólitískur óskalisti á ferð — það er náttúrlega ekki hægt að sitja undir slíku. Og það að halda því fram að hér sé búið að leggja þetta ferli í rúst vegna þess að það eru sex virkjanir á tveimur svæðum settar í biðflokk, ekki í endanlegt mat, ekki endanleg ákvörðun tekin heldur settar í biðflokk, það er náttúrlega ekki hægt að sitja undir því heldur í reynd að þá sé ferlið allt til einskis og þá geti héðan í frá hver sem er gert hvað sem er.

Það er reyndar einn jákvæður punktur, sá sem ég kom að í andsvari fyrr í dag. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt ef það er þannig í raun og sann að Sjálfstæðisflokkurinn lýsir því yfir að hann vilji halda í heiðri faglegum vinnubrögðum við ákvarðanir til framtíðar sem varða það hvort virkja eigi tiltekin svæði eða ekki því að sagan — hvað sem falleg orð segja — segir okkur allt annað, að fagleg sjónarmið hafi einmitt ekki legið þar að baki.

Við hljótum að leiða hugann að því að við höfum nú þegar raskað svo miklu. Það er svo oft talað eins og við séum á einhverjum upphafsreit. Það er heldur betur langt í frá. Við höfum raskað nær helmingi háhitasvæða landsins. Við erum þegar búin að fara í þá kosti sem eru hagkvæmastir. Ætlum við að láta eins og nú sé bara hægt að skipta öllu jafnt og þeir sem vilja fái leyfi til að merkja sér svæði til framtíðar?

Þegar talað er um sátt, hefði sáttin þá ekki einmitt verið sú sem hér er verið að mótmæla í dag af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að virkjanir á tveimur svæðum fari í bið? Biðflokkurinn hefði átt að vera miklu stærri. Á ákveðinn hátt lýsa ákvarðanir okkar hér, ekki bara í þessum þingsal heldur kynslóðarinnar, þ.e. að við tökum okkur svo mikið vald í hendur að ákvarða nýtingu og vernd svo margra svæða og framtíð þeirra, óafsakanlegri græðgi af okkar hálfu. Sáttin hefði einmitt átt að vera: Heyrið, við höfum gert svo margt af okkur, eigum við ekki að leyfa næstu kynslóð að taka frekar ákvarðanirnar? Rétt eins og við erum sem betur fer í aðstöðu til að gera núna í sambandi við Gullfoss og Dettifoss en hefðum ekki endilega verið ef sú óafturkræfa ákvörðun hefði verið tekin að virkja fossana. Það er munurinn á vernd og nýtingu að þegar búið er að virkja verður það ekki aftur tekið.

Óafturkræfum ákvörðunum fylgir gríðarlega mikil ábyrgð. Þess vegna ættu allir menn og konur sátta að fagna stærri biðflokki og því að hin endanlega ákvörðun sé send til framtíðar til frekari rannsóknar og aukinnar þekkingar. Okkur sárvantar enn aukna þekkingu og meiri rannsóknir á mörgum ólíkum sviðum. Þar standa orkufyrirtækin því miður miklu framar og þess vegna hefur þetta ekkert verið jafn leikur. Það vantar mjög mikið upp á ýmsar náttúrufarsrannsóknir, landslagsrannsóknir, rannsóknir er varða samfélagsáhrif, útivist og ferðaþjónustu, talandi um atvinnusköpun, og ýmislegt er varðar einmitt gildi víðerna.

Það, enn og aftur, að tala hér eins og öllu sé kastað fyrir róða er náttúrlega ekki hægt að segja með nokkurri sanngirni. Mig langar að hvetja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í anda sátta til að endurskoða hug sinn í þessum efnum, hvort það sé virkilega svona ofboðslega alvarlegt mál að við sýnum örlítið meiri auðmýkt og setjum fleiri svæði en færri í bið.

Þá kemur aftur að þessum athyglisverða útgangspunkti sem hv. þm. Róbert Marshall kom hér meðal annars inn á í sinni góðu ræðu: Hvers vegna þurfum við yfir höfuð að virkja nokkuð meira? Þurfum við ekki að færa alveg sérstaklega sterk rök fyrir því að ætla að virkja meira? Á spurningin að vera: Hversu lítið þurfum við að virkja en ekki hversu mikið? Við hér, við í þessum sal, okkar kynslóð, í núinu, í augnablikinu. Sýnum við ekki meiri ábyrgð með því að leyfa fólki framtíðarinnar að ákveða þessa mikilvægu hluti? Og rétt eins og sá sem hér talaði á undan mér, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, kom inn á þá skiptir ekki máli hvers vegna við þurfum yfir höfuð að virkja heldur fyrir hvað. Þá talar sagan og reynslan og tölurnar ekki mjög fögru máli, það verður að segjast eins og er.

Þótt ég sé rétt að byrja á þessum nokkru punktum eftir umræðu dagsins er ég strax að falla á tíma.

Hlutverk okkar núna er að reisa áfram varnir gegn óafturkræfum mistökum og óskynsamlegum ákvörðunum fyrir samfélag framtíðarinnar, að taka ekki ákvarðanir sem fólk í framtíðinni, unga kynslóðin okkar sem mun erfa landið, mun harma og segja að við höfum tekið af þeim ákvörðunarréttinn. Ég fagna því og ég held að það sé mjög mikilvægt að nýtingarflokk eigi alls ekki að skilja sem svo að búið sé að ganga frá virkjunum og ákveða um alla framtíð að þau svæði eigi og beri að virkja. Það þarf að fara í saumana því á öllu saman, hvernig við komumst hjá því að taka rangar ákvarðanir og förum fram af varúð og auðmýkt frekar en — ég leyfi mér að segja græðgi og heimtufrekju hér og nú.

Að lokum, frú forseti, verð ég að segja að mér þykir einboðið að þetta mál, sem er eitt af stærri umhverfismálum okkar tíma (Forseti hringir.) í okkar litla samfélagi, sem talað var fyrir af hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) fari til umhverfis- og samgöngunefndar.