141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu miðað við hennar sjónarmið. Hún sagði að þetta væri ekki sinn óskalisti. Mér finnst að hv. þingmenn þurfi að bera virðingu fyrir skoðunum hver annars og ekki tala um græðgi og heimtufrekju. Ég skil sjónarmið hv. þingmanns þó að ég fallist ekki á þau. Ég skil verndarsinna eða reyni að skilja þá en þá geri ég líka kröfu til þess að þeir reyni að skilja mig og þann hluta þjóðarinnar, sem er ansi stór, sem sér beina tengingu á milli þess að nýta auðlindirnar og velferðar og hagsældar.

Þessi sátt náðist og hún átti að vera málefnaleg. Um það var skrifuð þykk skýrsla, mikil vinna á bak við hana, mikill kostnaður, mjög vel unnin skýrsla, sem var að mínu mati ákveðin sátt. Ég var ekki sáttur við hana, langt í frá, en ég féllst á hana af því að málefnaleg rök voru fyrir því og ég vissi að hún var niðurstaða deilna á milli tveggja hópa.

Svo kemur hæstv. ríkisstjórn og rýfur þessa sátt, hún fer ekki að faglegum niðurstöðum þessarar nefndar. Það gefur að mínu mati höggstað á verndarsinnum. Þá er nefnilega hægt að gera nákvæmlega það sama í hina áttina. (Gripið fram í.) Það má t.d. taka úr biðflokki og setja í virkjunarflokk, (Gripið fram í.) ha? (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að fara að spjalla við hv. þingmenn héðan úr stólnum en fyrst menn eru farnir út fyrir rammann þá er alveg eins hægt að fara í hina áttina. Ég held að menn þurfi að sýna miklu meiri þolinmæði gagnvart skoðunum hver annars og ég minni á að ferðaþjónustan mengar ekki minna en álver.