141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:51]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Nú hygg ég að hinn mikli reynslubolti og ágæti hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sé að reyna að leiða mig í gildru og fá mig til að segja eitthvað sem hann veit (EKG: Nei, nei, nei.) að mér ber í reynd ekki að segja hér. Eins og ég segi vænti ég þess að þetta mál komi nú til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það verður áfram unnið í anda opins samráðs eins og okkur ber að viðhafa á þingi. Þar munum við hlusta á allar raddir. Ég ætla sannarlega að gera það. Ég veit að aðrir nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd munu líka gera það. Svo munum við, bæði hvert og eitt og saman, komast að þeirri niðurstöðu sem við teljum rétta. Þannig virkar þetta auðvitað eins og hv. þingmaður veit með alla sína reynslu.

Ég gæti nefnt marga kosti sem mér finnst, og ýmsum öðrum þingmönnum, að eigi að vera annars staðar en þeir eru. Við höfum talað um það í allan dag. Það sem ég var að reyna að koma áleiðis var að það er rangt að láta í veðri vaka að það sé eins konar pólitískur óskalisti eða nánast pólitískt skemmdarverk sem hér er á ferðinni. Ég hafna því með þeim málflutningi sem ég hef haldið hér uppi. Það er rangt.

Það er jákvætt og ætti í raun að vera leið til sátta fyrir sem flesta að stækka biðflokkinn, eins og sú tillaga sem liggur fyrir gerir. Í tillögunni eru sex virkjunarkostir settir í bið, á mínum óskalista mættu þeir sannarlega vera fleiri, en það er hlutlaust svæði fyrir framtíðina. Þess vegna er að mínu mati mjög ómálefnalegt og ósanngjarnt að láta eins og þetta eyðileggi ferlið eða setji málið í uppnám. Það gerir það ekki.