141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að leggja örlítið til málanna. Orka Íslands mjög hrein. Hún veldur ekki koldíoxíðsmengun og er þar af leiðandi mjög verðmæt fyrir mannkynið. Ég hef margoft spurt hvort það sé ekki skylda okkar Íslendinga að virkja sem allra mest. Ég er nærri viss um að eftir ekki mörg ár munu koma vaxandi kröfur frá erlendum umhverfisverndarsamtökum um að Íslendingar virki meira til að forða því að verið sé að virkja í Kína og Sádi-Arabíu og víðar, virkjanir sem byggja á brennslu kolefnis og valda koldíoxíðsmengun. Þetta er eitt sjónarmið sem mér finnst að þurfi að koma inn í þetta mál.

Annað sjónarmið er að Ísland hefur notað orkuna. Ísland hefur selt orkuna og þó að menn efist um arðsemina er hún mikil. Það sést á eigin fé Landsvirkjunar og eigin fé orkufyrirtækjanna allra. Orkuver eru yfirleitt afskrifuð á 40 árum en þau endast miklu lengur, sérstaklega vatnsaflsvirkjanir, reyndar ekki gufuaflsvirkjanir. Vatnsaflsvirkjanir fela í sér dulinn hagnað sem þjóðin nýtur góðs af.

Hér hefur verið deilt, síðan ég man eftir mér, um hvort eigi að virkja þarna eða hinum megin. Ég man gjörla eftir deilunum um Kárahnjúkavirkjun sem urðu mjög hatrammar og fram komu alls konar ógnir, það átti að koma jarðskjálfti og stíflan átti að hrynja og það átti að koma leki og henni mundi skola á haf út og ég veit ekki hvað, alls konar hræðsluáróður til að fá menn til að hætta að við að virkja þessa mjög svo góðu virkjun, að mínu mati. Hún sést varla. Hún er neðanjarðar. Það eru engar háspennulínur eða mjög stuttar. Það eru engin óeðlileg lón eins og í Blönduvirkjun eftir öllum fjöllum, heldur mjög eðlileg lón þar sem Hálslón er og virkjunin er aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem ekki var til boða áður vegna þess að svæðið var óaðgengilegt. Að öllu leyti held ég að þetta sé góð virkjun.

Kárahnjúkavirkjun hindraði líka brottflutning, eins og ég kynntist þegar ég heimsótti bæjarstjóra Reyðarfjarðar eða sveitarfélaganna þegar ég heyrði eymdartóninn um síminnkandi sveitarfélag sem fólk var að flytja í burtu frá. Brottflutningur hefur stöðvast og þótt allar áætlanir hafi ekki gengið eftir um fjölgun fólks á stöðunum hefur virkjunin alla vega stöðvað þá hrörnun sem var í gangi.

Eftir þessar miklu deilur var ég eiginlega ánægður með að menn fóru út í það að finna einhverja lausn, eins og rammaáætlun, sem segði: Þetta ætlum við að virkja, þetta ætlum við að vernda og þetta ætlum við að skoða. Það var farið í geysilega mikla vinnu og niðurstaðan er þessi skýrsla sem við höfum í höndunum sem segir: Svona er skynsamlegt að gera þetta, þetta er faglegt mat. Það er tekið tillit til alls konar þátta eins og ferðaþjónustu og meira að segja fegurðar landslags o.s.frv.

Fæstir voru sáttir við niðurstöðuna. Ég var ekki sáttur við hana því að hún setti of mikið í biðflokk og of mikið í verndarflokk. Ég féllst hins vegar á hana sem málamiðlun milli þeirra sem vilja vernda og hinna sem vilja virkja.

Síðan kemur ríkisstjórnin með þessa tillögu til þingsályktunar og þá er hún búin að taka virkjanir úr nýtingarflokki og færa yfir í biðflokk. Það finnst mér vera brot á þessu samkomulagi, brot á þessari sátt. Nú geta menn sagt: Ríkisstjórnin ræður á Alþingi og er með meiri hluta og svoleiðis. En mér finnst hún nefnilega vera búin að gefa fordæmi sem hægt er að nota seinna. Ég segi ekki að ég hafi glaðst yfir því en það gefur þeim sem vilja virkja fordæmi til að taka virkjunarmöguleika úr biðflokki og færa yfir í virkjunarflokk og úr verndarflokki yfir í biðflokk. Það er fordæmi fyrir því. (Gripið fram í: Hvaða fordæmi er það?)

Menn þurfa að viðurkenna skoðanir hver annars. Það finnst mér ekki koma fram í þessari umræðu. Menn eru svo heilagir í skoðunum sínum. Þeir hafa svo rétt fyrir sér að það þarf ekki einu sinni að hlusta á aðra, þeir taka bara óskynsamlegar ákvarðanir, eru með græðgi og heimtufrekju o.s.frv. Þannig er orðræðan.

Ég set beina tengingu milli þess að nýta auðlindir, hvort sem það eru sjávarauðlindir, orkuauðlindir eða hvaða auðlindir það eru, og að njóta velferðar og hagsældar. Sú stefna sem núverandi ríkisstjórn hefur, í fyrsta lagi að taka engar ákvarðanir eða litlar ákvarðanir af því að menn eru ekki sammála og í öðru lagi að virkja mjög lítið, hefur skaðað íslenskt atvinnulíf og íslenskan almenning. Það er mín skoðun.

Svo geta menn sagt: Það þarf ekkert að virkja neitt, menn geta bara verið fátækir og þeir sem ekki vilja vera fátækir geta farið af landi brott. Þetta geta menn sagt. (MÁ: Og þú berð virðingu fyrir okkar skoðunum, er það ekki?) Jú, ég ber virðingu fyrir því að sumum finnist í lagi að menn fari af landi brott og hinir fátæku verði eftir. (Gripið fram í.) Ég ber virðingu fyrir þeirri skoðun en ég er ekki sammála henni, það er ekki þar með sagt.

Mér finnst að menn hefðu átt að fara eftir faglegri niðurstöðu. Dreift hefur verið tillögu frá sjálfstæðismönnum, sem við ræðum væntanlega á morgun, um að halda þessu starfi áfram þannig að nefndin taki frekari ákvarðanir um það og sé nákvæmari í því hvað eigi að vera í virkjunarflokki og hvað eigi að vera í biðflokki og verndarflokki til að við séum ekki að breyta þessu hér eftir því sem okkur sýnist, að ríkisstjórnin sé ekki að breyta þessu. Einn þingmaður sagði til dæmis að hann styddi ekki ríkisstjórnina nema hætt yrði við að virkja Urriðafoss og setur sem sagt þumalskrúfu á ríkisstjórnina því að hann vill fá sín sjónarmið fram, hvað sem það kostar. Það er ekkert verið að horfa á sjónarmið annarra.

Sumir virkjunarkostirnir, eins og efst uppi við Þjórsá, hafa hreinlega dælustöð sem menn vilja taka í notkun, ekkert uppistöðulón eða neitt. Það má ekki heldur, sem er alhagkvæmasta virkjunin því að vatnið fer þá niður í gegnum allar virkjanirnar við Þjórsá, afskaplega hagkvæmt og veldur mjög litlum umhverfisspjöllum.

Mér finnst að menn eigi að ræða þetta miklu faglegar en gert er. Það er ekki gert. Það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur ríkisstjórn eftir þessa ríkisstjórn og eins og ég segi getur vel verið að virkjunarsinnar fái mesta stuðninginn frá umhverfisverndarsinnum úti í heimi vegna þess að íslenskar virkjanir eru mótvægi við hitnun jarðar sem allir óttast.