141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg afstöðu hv. þm. Péturs Blöndals. Hann segist ekki vera að öllu leyti sáttur við niðurstöður verkefnishópsins sem fram komu í skýrslunni sem hann kom með upp í ræðustól. Hv. þingmaður taldi þó að með nokkrum þeim breytingum sem sjálfstæðismenn leggja til, þ.e. að vinnu haldi áfram og að einhverju svolitlu verði breytt í niðurstöðunum geti hann orðið sáttur við þær og talar um að færa þurfi einhverja kosti úr verndarflokki yfir í biðflokk eða orkunýtingarflokk o.s.frv.

Eftir því sem ég best veit kemur engin flokkun fram í skýrslu verkefnisstjórnar sem hv. þingmaður var með í höndunum, engin flokkun í verndar- eða nýtingarflokk, orkunýtingarflokk eða biðflokk, heldur kemur fram í skýrslunni, sem er mikil að vöxtum og afrakstur góðrar vinnu, röðun virkjunarkosta með tilteknum einkunnum sem passar hver við sitt svið. Síðan er hægt að sjá hvort ein virkjun muni að þessu samanlögðu vera betri en önnur virkjun eða hvort eitt landsvæði sé dýrmætara en annað landsvæði. Svo má deila um það og geta ýmis sjónarmið verið í gangi um það, en þetta höfum við talið vera faglega undirstöðu verksins.

Er hv. þingmaður í raun ekki að tala um þetta faglega grunnplagg heldur um niðurstöðu hópsins? Í hópnum voru fjórir stjórar faghópanna í upphaflegu vinnunni plús formaður verkefnisstjórnarinnar sjálfrar og lagði hann fram tillögu sem voru drög að þingsályktunartillögunni. Drögin fóru í mikið umsagnarferli og kynningarherferð um allt land. En munurinn á þeirri tillögu og þingsályktunartillögunni sem við ræðum núna er sá að (Forseti hringir.) nokkur landsvæði á tveimur landshlutum eru færð í biðflokk. Ekki er (Forseti hringir.) tekin ákvörðun heldur eru þessi svæði færð í biðflokk til þess að taka ákvörðun um þau síðar þegar allar upplýsingar eru komnar fram. (Forseti hringir.) Er það það sem hv. þingmaður á við?