141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fækkun starfa.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Að undanförnu hefur verið rætt um stöðuna á vinnumarkaði hér á þinginu og virðulegur forsætisráðherra hefur talað um að störfum hafi fjölgað. Undir stefnuræðu forsætisráðherra var til dæmis talað um að störfum hefði fjölgað um 4.600 á þessu ári. Því miður kemur þetta ekki heim og saman við þær opinberu tölur sem við höfum úr að spila til að meta stöðuna á vinnumarkaði. Samkvæmt opinberum tölum sjáum við ekki að störfum sé að fjölga í landinu. Það sem meira er, þessar ítrekuðu yfirlýsingar forsætisráðherra hafa kallað fram viðbrögð aðila vinnumarkaðarins. Þannig hafa til dæmis Samtök atvinnulífsins talað um dapurlegar niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar og bent á að störf hafi ekki verið færri síðan 2005. Þau hjá samtökunum tala um langan lista vanefnda stjórnvalda vegna kjarasamninga.

Hið sama gildir um ASÍ. Forseti ASÍ ítrekaði nýlega að störfum á Íslandi væri ekki að fjölga og miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi standi við gefin loforð. Samiðn hefur líka nýlega ályktað um þessi mál og harmar vanefndir ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingar en þær eru auðvitað grundvöllur þess að hér fari hagvöxtur af stað og að ný störf verði til.

Mig langar til að biðja hæstv. forsætisráðherra að bregðast við þessum ályktunum og þeim ábendingum sem borist hafa frá þeim sem treyst hafa á samstarf við ríkisstjórnina um sköpun nýrra starfa. Úr þeirra röðum heyrðist bara ein rödd og hún er þessi: Nýju störfin hafa ekki orðið til og ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sinn hlut í því að efla fjárfestingu í landinu sem er grundvöllur þess að ný störf verði til. Hvernig vill hæstv. forsætisráðherra bregðast við þessari umræðu og þeirri staðreynd að samkvæmt mælingum hafa störf ekki verið færri síðan 2005?