141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fækkun starfa.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég á dálítið erfitt með að trúa því að auk þess að vera komin upp á kant við ASÍ, SA og Samiðn um staðreyndir þessa máls ætli forsætisráðherra sér líka að gagnrýna Hagstofuna. Ef það á að nota ágústtölurnar og segja að skekkjumörkin þar hafi verið slík að taka verði tillit til þeirra getur maður allt eins sagt það um júlítölurnar. Það eru nákvæmlega sömu skekkjumörk. Aðalatriðið er að það er verið að bera saman sambærilegar tölur. Tölurnar í júlí á þessu ári sýna að störfum hefur ekki fjölgað frá því í júlí á síðasta ári þannig að það er óskaplega dapurlegt ef menn vilja ekki horfast í augu við opinberar tölur og grípa frekar til þess ráðs að gera tortryggilegt það eina tól sem við höfum til að mæla stöðuna í þessum efnum.

Ég kalla eftir því að menn í ríkisstjórn fari að horfa raunsætt á ástandið og átti sig á því að ef ekki verður (Forseti hringir.) nein nýfjárfesting í landinu verða engin ný störf og það er vegna skorts á fjárfestingunni sem staðan er eins slæm og tölurnar sýna.