141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fækkun starfa.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fer fram á það sama við hv. þingmann, að hann horfi raunsætt á stöðuna. Ég var bara að vitna til þess sem fram kemur hjá Hagstofunni, sagði að það væri varhugavert að miða bara við ágústmánuð og draga ályktanir út frá því eins og hv. þingmaður gerir. Hann verður að líta á sveiflurnar til að meta stöðuna rétt. Ég sagði að það væri áhyggjuefni ef þessi þróun sem er í ágúst sýndi sig áfram næstu tvo mánuðina og þá hljótum við að hafa verulegar áhyggjur af stöðunni. Það er þó ekki ástæða til þess í augnablikinu.

Af því að talað er um hagvöxt ætla ég að vitna aftur í greiningardeildina þar sem hún talar um að hagvöxtur geti orðið eitthvað meiri en við höfum þó verið að tala um, hann gæti verið 3%. Miklar fjárfestingar eru í gangi eins og hv. þingmaður veit, bæði á suðvesturhorninu og norðausturhorninu. Fjárfestingarsamningar í gangi eru einir sex og mjög mikið í gangi á vegum stjórnvalda, eins og hv. þingmaður þekkir, í fjárfestingaráætlun (Forseti hringir.) og það sem við sjáum í fjárlögum. Ég segi enn og aftur að það er óþarfi að draga upp svarta mynd af stöðunni.