141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

húsnæðismál og skuldir heimilanna.

[10:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess í svari hæstv. forsætisráðherra að hún skyldi ekki tjá sig um tillögu okkar framsóknarmanna. Þar leggjum við einmitt til að allir flokkar á þingi setjist niður og velti fyrir sér hvort það sé mögulegt að nota skattkerfið til að koma til móts við alla þá hópa sem virðulegur ráðherra ræddi um.

Við verðum líka að hafa í huga að ef við horfum á upphæðina var í byrjun gert ráð fyrir að settir yrðu mun meiri peningar í 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði, en skilyrðin voru sett svo ströng að aðeins um 6 milljarðar fóru í leiðréttingu á lánunum þar. Áður höfðu verið áætlaðir um 10 milljarðar frá Alþingi.

Við skulum líka hafa í huga að þeir greiðsluaðlögunarsamningar sem þegar er búið að koma á hafa kostað rúma 2 milljarða. Setjum þetta aðeins í samhengi, höfum í huga að hér töluðu menn fyrir því að það væri í lagi að borga 30–40 milljarða í erlendar (Forseti hringir.) vaxtagreiðslur af Icesave en hafa síðan séð ofsjónum yfir því að koma til móts við heimili landsins svo það (Forseti hringir.) virkilega dugi til.