141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

jafnréttismál.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er: Já, ég tel að við eigum að skoða það sameiginlega hvort það sé ástæða til að breyta jafnréttislögum og jafnvel fleiri lögum. Ég tel mjög mikilvægt að bæði kærunefnd jafnréttismála og hæfnisnefndir vinni eftir sameiginlegri forskrift og sameiginlegum forsendum í mati sínu á hæfni viðkomandi og þá hvort ráðherrar hafi brotið lög þegar það snýr að kærunefndinni. Ég held að við ættum að setjast yfir það hvort ástæða sé til þess.

Ég held líka að við eigum að skoða hvort ástæða sé til þess að víkka það út að hafa hæfnisnefndir í stjórnkerfinu. Þær eru núna fastskipaðar og fastsettar þegar um er að ræða ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Ég held að það eigi að útvíkka þetta og að það eigi að ná til allra ráðninga. Ég tel að fyrir liggi þingsályktunartillaga frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni o.fl. um að breyta hæfnisnefndunum þannig að það sé skylda að skipa hæfnisnefndir við ráðningar hjá Stjórnarráðinu. Það tel ég til bóta. Þetta tvennt tel ég að þurfi að gerast.

Að því er varðar þessi tvö mál sem hv. þingmaður nefnir held ég að það hafi verið jákvætt að bæði sú sem hér stendur og hæstv. innanríkisráðherra hafi virt niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála (Gripið fram í.) þó að þeir ráðherrar sem þarna eiga í hlut hafi ekki verið sammála niðurstöðunni. Ég held að það sé mikilvægt að virða niðurstöðuna og það úrræði sem kom í jafnréttislögunum.

Af því að hv. þingmaður er iðin við að rifja upp það mál sem snýr að þeirri sem hér stendur minni ég á að ríkið var sýknað af háum skaðabótakröfum, um 15 millj. kr. Það sem var dæmt var ekki vegna skaðabóta heldur vegna miska (Forseti hringir.) og það upp á 500 þúsund sem var sama fjárhæð og sú sem hér stendur hafði boðið viðkomandi aðila. (Gripið fram í: Hvað kostaði …?)