141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

jafnréttismál.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að sú sem hér stendur hefur beðist velvirðingar að því er varðar minn hlut í þessum málum. Það hefur sennilega farið fram hjá henni. Það hefur kannski líka farið fram hjá hv. þingmanni að niðurstaða dómsins í því máli sem mig varðar var að ekki væri fullyrt að stefnandi hefði átt að fá þetta embætti. Ég hef beðist velvirðingar á þessu og tel að við eigum að virða niðurstöður kærunefndar jafnréttismála. (Gripið fram í.) Þær eru mjög mikilvægar og ég tel að það hafi verið mikilvægt að innanríkisráðherra virti líka þessa niðurstöðu með því að fara ekki með málið fyrir dóm. Ég held að það skipti máli. Auðvitað er slæmt ef ráðherrar brjóta jafnréttislög, það gefur augaleið og þarf varla að spyrja að því, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)