141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

staða ESB-umsóknarinnar.

[11:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég held að Íslendingar séu fyllilega upplýstir um hvað er að gerast í Evrópusambandinu og ég held að margir fylgist mjög vel með þessari umræðu.

Það vakti furðu mína að hæstv. ráðherra skautaði algjörlega yfir þær spurningar sem ég beindi til hennar. Ég spurði einfaldlega um þau ummæli sem hæstv. ráðherra lét falla í ágúst þess efnis að það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál áður en þessu kjörtímabili lyki, ekki síðar en við næstu þingkosningar. Eiga þau ummæli ekki við rök að styðjast? Getur hæstv. ráðherra farið yfir það hér hvað hún átti nákvæmlega við með þessum ummælum? Stendur til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál á þessu kjörtímabili eða ekki? Voru þetta kannski bara svona orðin tóm? Það hlýtur að vera fullkomlega eðlileg krafa að þingheimur og þjóðin fái upplýsingar (Forseti hringir.) um það hvað hæstv. ráðherrar sem tjáðu sig um þetta mál áttu nákvæmlega við. (Forseti hringir.) Stendur til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið eða (Forseti hringir.) ekki?