141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er í raun ekkert hægt að hártogast um það, finnst mér, hvert senda á þessa þingsályktunartillögu til meðferðar í nefnd. Í texta um atvinnuveganefnd stendur meðal annars að nefndin fjalli, með leyfi forseta, um „nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar“. Í formála að rammaáætlun segir að í september 2007 hafi iðnaðarráðherra skipað 11 manna verkefnisstjórn til að ljúka 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti jafnt vatnsafls og háhita.

Þeir sem kjósa að senda þetta til umhverfisnefndar en ekki atvinnuveganefndar, sem skýrt er kveðið á um í þingsköpum og kemur fram í rammaáætlun, um hvað hún fjallar, og greiða atkvæði með því brjóta þar með þingsköp Alþingis sem urðu að lögum (Forseti hringir.) 29. júní sl.