141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er algerlega fráleitt að halda því fram að það séu einhvers konar brot á þingsköpum að vísa þessu máli til umhverfis- og samgöngunefndar. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefði mátt lesa aðeins lengra í þingsköpunum, yfir í næstu málsgrein þegar hann vitnaði í þau áðan, en þar segir í 4. tölulið 13. gr., um hlutverk umhverfis- og samgöngunefndar:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.“

Það er nefnilega þannig að umhverfisnefnd þingsins er eina nefnd þingsins sem fjallar bæði um umhverfis- og auðlindamál en það er nákvæmlega inntak þess máls sem hér er til umræðu, þ.e. áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eða eins og segir um markmiðið í upphafi þingsályktunartillögunnar að tryggt verði „að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu (Forseti hringir.) hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til (Forseti hringir.) verndargildis náttúru …“