141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er einmitt á stundum sem þessum sem ég upplifi sjálfstætt þing. Við erum einmitt að taka afstöðu til deilumáls. Deilumálið er frekar augljóst og ég held að það sé býsna stórt og miklu stærra en margir kannski átta sig á.

Það birtist okkur núna þannig að um það bil helmingur þingheims telur að rammaáætlun sé meira atvinnumál heldur en umhverfismál og um það bil helmingur þingheims telur að rammaáætlun sé meira umhverfis- og auðlindamál heldur en atvinnumál. Rammaáætlun er vissulega hvort tveggja. Við erum að taka afstöðu til þess hér og nú hvort hún er meira atvinnumál eða umhverfismál.

Mín afstaða er sú að rammaáætlun sé meira umhverfis- og auðlindamál, vissulega líka atvinnumál en meira umhverfis- og auðlindamál. Þess vegna er ég fylgjandi því — og þingsköp kveða skýrt á um það að við eigum að taka slíka afstöðu á stundum sem þessum — að málið fari í umhverfis- og samgöngunefnd. Einfalt mál.