141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:06]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að reyna að vera jákvæð og fagna þeim tón í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar þar sem hann leggur áherslu á að náð verði einhvers konar sátt á endanum um þessi mál og að faglegt ferli sé virt og fagmennska höfð í fyrirrúmi. Það eigi að virða þetta ferli vandaðra vinnubragða og fagmennsku. Ég ætla að fagna því að þeir tónar komi úr ranni Sjálfstæðisflokksins vegna þess að ef við getum verið sammála um það miðar okkur þó áleiðis.

Ég geri hins vegar mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp, í örstuttu máli, meðal annars vegna þess að hér er vegið að lögum sem voru samþykkt af miklum meiri hluta í þinginu. Breytingarnar lúta allar í þá átt að hampa frekar nýtingu og klippa í raun á opið samráð og samtal við almenning og samtök sem er mjög nauðsynlegt í öllu því ferli sem á endanum að leiða til sátta. Sáttin gerist ekki í lokaðri nefnd heldur úti í samfélaginu. Við erum að reyna að ná sátt í samfélaginu. Þá þarf opið samtal og samráð og það þarf að vera áframhaldandi.

Frumvarpið er í raun lagt fram vegna þess að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ósáttir við að nokkrir kostir voru settir í bið. Nú spyr ég hv. þingmann: Ef við ætlum að hafa í heiðri fagleg vinnubrögð, er þá ekki faglegt (Forseti hringir.) að leggja umdeilda virkjunarkosti í bið til frekari rannsókna, til að afla frekari upplýsinga áður en endanleg ákvörðun er tekin? Er það ekki í reynd (Forseti hringir.) að virða ferli sátta og virða faglegt ferli þar sem ábendingar hafa komið um að frekari (Forseti hringir.) rannsókna sé þörf?