141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:08]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka jákvætt í það upplegg sem við erum með í þessu máli þótt hún geti ekki tekið undir öll efnisatriðin. En ég verð jafnframt að segja að mér finnst hv. þingmaður gera of mikið úr því að við séum að halda álitaefnum frá fólki, vegna þess að samráðið á sér að sjálfsögðu stað í vinnu verkefnisstjórnarinnar. Það má kannski halda því fram að með því að ráðherra sendir niðurstöðuna ekki út til umsagnar líka sé fækkað þeim stöðum þar sem gefst tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri. Ég held hins vegar að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af því í ljósi þess hvernig verkefnisstjórnin starfar, ekki síður í ljósi þess að hér á þinginu gefst líka tækifæri til að kalla eftir sjónarmiðum. Á endanum fær málið þinglega meðferð.

Það sem ég held að ráði úrslitum um það hvaða andi fylgir málinu inn í þingið er hvort efnisatriði þess ráðast af því hvaða áherslur ríkisstjórn hvers tíma hefur í málaflokknum. Ef málið verður ávallt markað af pólitískum áherslum ríkisstjórnar á hverjum tíma verður rammaáætlunin í framtíðinni aldrei annað en pólitískt plagg. Þá hefur okkur mistekist á þeirri 20 ára vegferð sem við erum búin að fara síðan 1993 og ég rakti hér áðan, að leiða fram breiða sátt um heildarniðurstöðuna.

Varðandi (Forseti hringir.) síðari spurninguna er svo sem hægt að fara þá leið að segja að í hvert sinn sem einhver vafi er verði menn að fella viðkomandi virkjunarkost í biðflokk, en þetta verður (Forseti hringir.) alltaf matsatriði. Að sjálfsögðu verða menn að meta þetta. Það sem við erum að benda á er að þetta var ekki í samræmi við meginniðurstöðu verkefnisstjórnarinnar.