141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:11]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Málið er þetta: Ef okkur er alvara með því að segjast ætla að virða ferlið og fyrirliggjandi lög og þau upplegg sem lagt hefur verið upp með, þá er það þannig að í því ferli sem ákveðið var á Alþingi, samkvæmt lögum, var gert ráð fyrir að ráðherra ætti að leita umsagna og ábendinga í opnu samráðsferli. Það liggur því augljóslega í hlutarins eðli að ráðherra ber að hlusta eftir þeim ábendingum sem Alþingi hefur sagt að eigi að leita eftir í þessu ferli.

Ef niðurstaðan er sú að setja eigi nokkra virkjunarkosti í bið — það er ekki verið að færa kosti úr bið í vernd eða í nýtingu heldur er þetta hlutlaus aðgerð í þágu aukinnar fagmennsku — til að fram geti farið frekari rannsóknir og öflun frekari upplýsinga til að geta á endanum tekið einmitt upplýstari og betri ákvörðun er það til að tryggja enn frekari fagmennsku í ferlinu. Og það kom nota bene ítrekað fram að ýmsir faghópar sögðust á faglegum forsendum þurfa meiri tíma, það þyrfti meiri rannsóknir, t.d. hvað varðaði útivist og ferðaþjónustu. Það hafa komið mjög alvarlegar ábendingar fram um háhitavirkjanir og annað, og það væri mjög vert að setja fleiri kosti í bið. Það væri hægt að tefla fram mjög veigamiklum rökum um það hér.

En niðurstaðan eins og hún er er vægast sagt mjög væg: Ákveðnir (Forseti hringir.) virkjunarkostir eru settir í bið. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson aftur um þetta. Hvernig er hægt að segja, ef málflutningurinn á að vera málefnalegur og faglegur, að (Forseti hringir.) þarna sé verið að tefla ferlinu öllu í uppnám?