141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að andmæla þeim ummælum hæstv. ráðherra að náttúruverndarsjónarmið eigi engan hljómgrunn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að það að við leggjum fram þessa tillögu og að málflutningur okkar er sá að við viljum að hér fari í gegn rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda feli þegar í sér þá stefnu að við tölum fyrir vernd jafnt sem nýtingu. Þannig að ég vísa þessu til föðurhúsanna.

Mig langar að ræða við hæstv. ráðherra um rökstuðninginn fyrir því að færa virkjunarkosti úr nýtingu yfir í bið, sem ráðherrann talaði um, það væri gert í ljósi þess að umræða um víðerni hefði ekki verið nægileg. Nú sér maður við lestur skýrslunnar sem verkefnisstjórn skilaði af sér að það er bara ekki rétt. Bæði faghópur I og faghópur II fjölluðu sérstaklega um víðerni. Skoðum það mat á áhrifum sem notað var í faghópi I, við getum til dæmis kíkt á bls. 83, með leyfi forseta:

„Há einkunn var gefin ef framkvæmd klýfur eða skerðir verulega stór, samfelld og/eða verðmæt víðerni.“

Þetta er eitt af stærstu atriðunum sem sá faghópur fór yfir. Og ef allur kaflinn er lesinn má jafnframt sjá að orðið víðerni kemur hvað eftir annað fyrir og fjallað um áhrif þess. Það er alveg ljóst að bæði faghópar I og II tóku þessi sjónarmið inn í mat sitt. Það var ráðandi við niðurstöður hópanna.

Þannig að (Forseti hringir.) það er ekki hægt að halda fram þeim rökum sem hæstv. ráðherra heldur fram. Var ekki farið yfir það hvernig faghóparnir unnu?

(Forseti (KLM): Ég bið ræðumenn að athuga að það gæti verið ruglingur á klukkunni, en tímamælingin fer fram hér uppi.)