141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi skil ég vel að hv. þingmanni skuli sárna þau orð að ég sjái þess ekki stað að talsmenn náttúruverndar eigi hljómgrunn meðal kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ég verð bara að ítreka þessa afstöðu mína vegna þess að lagabreytingarnar í því frumvarpi sem hér er lagt fram eru allar í þá átt að fara frá náttúruvernd og í áttina að nýtingu. Hvert einasta atriði hér. Ég bið hv. þingmann að benda mér á dæmi um annað ef svo er.

Hins vegar þakka ég hv. þingmanni fyrir að nefna umræðuna um víðernin af því að við náðum ekki að loka þeirri umræðu í gær. Á bls. 17 í þeirri þingsályktunartillögu sem var til umræðu í gær kemur fram að við undirbúning stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs var stuðst við alþjóðleg viðmið um svokölluð „buffer zones“ eða áhrifasvæði sem liggja að friðlýstum svæðum. Slíkum áhrifasvæðum er ætlað að tryggja að verndargildi hins friðlýsta svæðis skerðist ekki vegna athafna á aðliggjandi svæðum. Af þessum sökum voru mörk þjóðgarðsins meðal annars dregin 5 km austan við Hálslón, en við vinnu verkefnisstjórnar voru þessi áhrif á verndarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs ekki metin.

Þannig að ég bið hv. þingmann að virða mér það til vorkunnar að ég tali of almennt um víðerni vegna þess að það er hárrétt sem kemur fram í máli hennar að það er ítarlega fjallað um víðerni sem slík, en víðernisupplifunin í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð er ekki metin sérstaklega. Hér segir, með leyfi forseta, í þingsályktunartillögunni á bls. 17:

„Mikilvægt er að þessi áhrif verði könnuð áður en ákveðið er að setja umrædda virkjunarkosti í nýtingarflokk.“