141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kýs að ljúka umræðunni um víðerni við hæstv. ráðherra af því ég held við verðum ekki sammála um þetta. Við náum ekki að sannfæra hvor aðra um okkar málstað.

Ég er ósammála. Ég tel að verkefnisstjórnin og faghóparnir sem undir henni störfuðu hafi fyllilega mætt þessari umræðu og sjónarmiðum um víðernin, þess sjáist merki alla leið inn í röðun verkefnisstjórnar á þeim kostum sem við höfum rætt hér.

Aðeins um þau sjónarmið hæstv. ráðherra að hvergi sjái þess stað í málflutningi sjálfstæðismanna eða tillögum að þeir beri náttúruvernd fyrir brjósti. Það er ljóst að við styðjum gerð rammaáætlunar. Þetta er okkar mál og við settum 2. áfanga rammaáætlunar af stað þegar við sátum í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þá þegar kom í ljós þessi mikla áhersla á vernd jafnt sem nýtingu. Þar kom sú stefna fram.

Ég er afskaplega stolt af flokknum mínum að ætla sér ekki að vaða í að rífa niður þá tillögu sem hæstv. ráðherra mælti fyrir í gær og segja: Já, við ætlum bara að koma með okkar eigin rammaáætlun og leggja til að allt verði grátt hér á landi, eins og hæstv. ráðherra virðist halda að við séum að segja og ítreka með því þingmáli sem við leggjum fram og tölum fyrir í dag. Við ætlum okkur að fara eftir faglegum ábendingum og faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. Við viljum einfaldlega fara alla leið.

Í erindisbréfi verkefnisstjórnar sem upphaflega var birt 2007 og verkefnisstjórnin starfaði eftir kemur fram að verkefnisstjórnin ætti að flokka. Síðan þegar við í verkefnisstjórninni vorum komin á það stig að vinna þetta þannig að við gætum farið að skila af okkur tafðist í þinginu að setja þá löggjöf sem átti að ramma inn hvernig verkefnisstjórnin skilaði af sér. Á tímabili var þannig ekki ljóst (Forseti hringir.) hvernig verkefnisstjórnin mundi skila af sér. Er ráðherrann ekki sammála mér um að það hafi allt eins komið til álita á þeim tíma og í gegnum allt ferlið að verkefnisstjórnin mundi skila af sér flokkuðum niðurstöðum?