141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir ræðu sína sem var í samræmi við sjónarmið hennar. Hún hafði miklar áhyggjur af sjálfstæðismönnum. Ég held hún ætti nú að gleðjast yfir þeim frekar en að hafa áhyggjur af þeim. Ég hef engar áhyggjur af vinstri grænum þótt þeir hafi svikið það að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu, meira að segja hæstv. ráðherra samþykkti að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu skilyrðislaust þó að það væri hernaðarbandalag. Ég hef heldur ekki áhyggjur af því þótt þeir hafi svikið það að ganga ekki til samstarfs við AGS. Ég hef heldur ekki áhyggjur af því þótt þeir hafi svikið að greiða aldrei Icesave. Þetta voru allt saman kosningaloforð. Ég geri ráð fyrir því að þeir mæti bara kjósendum sínum sem dæmi þá eftir þessu.

Svo sagði hæstv. ráðherra: Það er ráðherra sem ber ábyrgð. Það er hárrétt. Þá skal hann bara keyra mál sín í gegn. Svo kemur nýr ráðherra. Hvað gerist þá? Hann keyrir sín mál líka í gegn, hann ber ábyrgð og það verður engin sátt neins staðar. Það verður engin sátt.

Rammaáætlun var sett í gang af því Sjálfstæðisflokkurinn er mjög umhverfisverndarsinnaður flokkur. Við höfum staðið að grænni umhverfisvernd o.s.frv., þannig að Sjálfstæðisflokkurinn setti í gang þessa málamiðlun milli þess að skapa atvinnu og að vernda. Hæstv. ráðherra hefur unnið gegn því að skapa atvinnu alla tíð.

Þessi áætlun var gerð til að koma á samstarfi og sætta ólík sjónarmið þannig að það yrði ekki endalaus slagur. Þess vegna studdi ég rammaáætlun og það yrði fundið út hvar væri rétt að virkja og ekki rétt að virkja.

Svo kemur ráðherra og beitir ráðherravaldi sínu til að breyta þessu. Hún sagði það sjálf að ráðherra bæri ábyrgð. Hún ætlar sem sagt ekki að fara að þessu samkomulagi, hún ætlar ekki að fara að þessari sátt. Þá er það þannig. Það verður keyrð í gegn (Forseti hringir.) einhver rammaáætlun og síðan kemur nýr ráðherra og breyti öllu.