141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig nú ekki á því hvaða spurning liggur akkúrat í loftinu því að hv. þingmaður virtist í meginatriðum hafa hlutina það vel á hreinu að hann þarfnaðist ekki svara við nokkrum sköpuðum hlut, m.a. ekki því að sú sem hér stendur hefði unnið sérstaklega „gegn því að skapa atvinnu alla tíð“.

Ég hefði áhuga á því að heyra hv. þingmann gera betur grein fyrir nefndri grænni umhverfisverndarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef áhuga á því.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegur forseti, að pólitískt landslag á Íslandi skuli vera þannig að fremur breiður Sjálfstæðisflokkur sem hefur staðið fyrir tiltölulega breiðum og oft frjálslyndum sjónarmiðum skuli vera svo þröngur sem raun ber vitni í náttúruverndarmálum. Það er vegna þess að ég hef áhuga á stjórnmálaþróun almennt í heiminum. Það er ekki tilfellið hjá öllum systurflokkum Sjálfstæðisflokksins í Evrópu til að mynda eða annars staðar að þeir séu yfirleitt mjög þröngir og fordómafullir í náttúruvernd og umhverfismálum. Ég hef áhyggjur af þessu vegna áhuga míns á stjórnmálum almennt.

Þegar ég segi að ráðherra beri ábyrgð á stefnumótun eru það engar fréttir. Hvaða fréttir eru það? Ráðherrann ber ábyrgð á stefnumótun í málaflokki sínum. Ef honum ber samkvæmt lögum að leggja þá stefnumótun fyrir þingið, gerir hann það. Það er það sem hann gerði í gær. Hvaða fréttir eru það sem hv. þingmaður er að segja? Þá heitir það að keyra mál sín í gegn.

Ég veit ekki hvaða viðmið hv. þingmaður hefur í málflutningi af þessu tagi. En ég hefði mikinn áhuga á því að heyra yfirferð hv. þingmanns á nefndri grænni umhverfisverndarstefnu (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins.